Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 12:35:51 (3850)


[12:35]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil fyrst út af jarðræktarframlögunum aðeins segja að ég man ekki betur en hv. þm. hafi þegar hann var landbrh. átt í erfiðleikum með að standa fullkomlega í skilum við bændur í sambandi við jarðræktarframlög og væri rétt að fletta því upp og athuga hvort hann geti með sínum embættisrekstri forðum staðið við þau stóru orð sem hann sagði hér um þau efni.
    Ég vil í annan stað segja að það er auðvelt að koma nú á þessum erfiðleikaárum sem síðasta ríkisstjórn skildi eftir sig fyrir hv. þm. sem var ráðherra á veltuárunum á síðasta áratug og hafði þá alla möguleika til þess að vinna að hagræðingu í sauðfjárbúskap hér á landi. Það væri gott ef hann kæmi hér upp og segði okkur frá því hvað hann hafi verið að gera til þess að afla markaða erlendis með öllu því fé sem þá rann úr ríkissjóði í gegnum Samband ísl. samvinnufélaga og um aðra slíka sjóði. Hvar var uppbyggingin á hinum erlendu mörkuðum á lambakjötinu sem við tókum í arf? Hvað var gert á þeim tíma til þess að reyna að stemma stigu við þeim ofvexti sem sannanlega var í sauðfjárræktinni og bændur nú súpa seyðið af? Og hvar var löggjöfin sem hv. þm. studdi sig við þegar hann var að skammta mönnum úr hnefa búmark og framleiðslurétt? Hvar var löggjöfin sem hann studdist við og hvernig er slóðin sem við horfum nú á frá þessum árum og sýnt hefur verið fram á að ekki standist lög?