Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 13:06:23 (3859)


[13:06]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það var nú svo í GATT-samkomulaginu að meginreglan skal vera frjáls innflutningur sem ríkisstjórnin markaði og hefur staðið á öllum reglum og það gerðist hér síðast í vetur að allri lagagerð og allri ákvörðun um tolla og hvernig við þessum nýja samningi yrði tekið var frestað til næsta Alþingis. Núverandi ríkisstjórn eða stjórnarflokkar réðu ekki við málið.
    Ég fagna því að hæstv. ráðherra segist vera að undirbúa jarðveg til þess að hægt sé að taka búvörusamninginn upp. Ég tel það mikilvægt. Ég hef ekkert skotið mér undan þeirri ábyrgð eins og hann fullyrti að ég beri sem þingmaður ábyrgð á búvörusamningnum. Það geri ég vissulega og tel þó eigi að síður að þeir menn sem þá fóru með þessi mál, hæstv. landbrh., hann ekki fremur en kannski aðrir sáu hvað fram undan var en nú vitum við það fjórum árum síðar að það eru ótal nýir möguleikar fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir og þess vegna var ég að leggja hér áherslu á að það er sorglegt að sitja uppi með ríkisstjórn sem ekki viðurkennir þessar staðreyndir og vinnur úr málinu.
    Hvað útflutningsbæturnar varðar, hæstv. ráðherra segir að þetta sé yfirboð af minni hálfu að tala um 100 kr. Ég tel það ekkert yfirboð, hæstv. ráðherra. Það mundi tryggja stöðu sveitanna, efla sauðfjárræktina, draga úr atvinnuleysi og miða við einmitt, hæstv. forseti, þá markaði sem við eigum von í í sauðfjárframleiðslunni, þá er ekkert mikilvægara en að viðurkenna þá staðreynd og taka upp styrki með þessum hætti þó menn kalli það ekki útflutningsuppbætur.