Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 14:01:36 (3867)


[14:01]
     Guðmundur Stefánsson :
    Hæstv. forseti. Sú skýrsla sem hér er til umræðu um framkvæmd búvörusamningsins er vissulega tímabær og umræða um hana sömuleiðis. Þetta mál á í sjálfu sér ákaflega langan aðdraganda og það eru orðin ein þrjátíu ár síðan farið var að taka á þessum málum. Fyrst í þá átt að auka hér búvöruframleiðslu

og síðan í þá átt að draga úr henni og hefur á ýmsu gengið. En nú undanfarin áratug eða svo hafa verið gerðir búvörusamningar og þeir hafa haft það meginmarkmið annars vegar að koma böndum á landbúnaðarframleiðsluna og svo einkum og sér í lagi í seinni tíð að draga beint úr útgjöldum ríkisins til landbúnaðarmála. Það má vel vera að það sé ágætt, það þarf auðvitað að draga alls staðar úr útgjöldum ríkisins eins og nokkur kostur er en það skiptir miklu máli hvernig það er gert og til hvers það er gert. Bændur og landbúnaðurinn hafa í mjög langan tíma búið við ákaflega erfiðar aðstæður og í rauninni ekki verið neinar einfaldar leiðir til að komast frá þeim vandamálum sem þar hefur verið við að etja og það tengist auðvitað ástandi á ýmsum öðrum sviðum þjóðlífsins sem hefur gert það að verkum að svigrúm hefur verið minna en menn hefðu sjálfsagt óskað sér.
    Ég ætla ekki sérstaklega að ræða um framkvæmd búvörusamningsins. Ég ætla samt að ræða hér örlítið um þessa skýrslu og önnur þau mál er þessu tengjast. Þessi búvörusamningur, sem segja má að sé á vissan hátt á enda runninn, er að ýmsu leyti ágætur. En hann er ekki nema að hluta til stefnumarkandi og hann er aðeins gerður til fjögurra ára. Í raun má segja að það er engin eiginleg stefna, engin eiginleg formleg stefna ríkjandi í landbúnaðinum. Það má reyndar segja það líka um aðra atvinnuvegi þjóðarinnar. Það er engin heildstæð stefna ríkjandi. Það er tekið á ýmsum atriðum með ýmsum hætti en það er ekki til nein heildstæð stefna sem setur fram skýr markmið og gefur fyrirheit um hvert stefna skuli og hvernig. Það er vissulega verulegum fjármunum varið til landbúnaðarmála, en hvert er markmiðið? Þegar menn ræða um þær fjárveitingar sem fara til landbúnaðarmála þá mega menn ekki einblína á þá upphæð sem þar er um að ræða heldur verða menn líka að skoða hvað fæst fyrir þá upphæð og hvað mundi gerast ef þessum fjármunum væri ekki varið með þeim hætti sem raun er á. Þá hygg ég að ýmislegt kæmi upp sem e.t.v. breytti skoðun fólks á því hvernig þessi mál eru framkvæmd.
    En aftur að stefnumörkun í landbúnaðarmálum. Ég sagði hér áðan að ég teldi að það væri engin heildstæð stefna til í atvinnumálum og heldur ekki landbúnaðarmálum og þegar við víkjum að búvörusamningnum, hvert er þá hið raunverulega markmið með þessum samningi? Er ætlunin að tryggja eða stefna að ákveðnum hlutföllum milli búgreina í landinu? Eða vill Alþingi nýta landbúnaðinn til þess að ná fram ákveðnum markmiðum í byggða- og búsetumálum? Eða vill Alþingi með búvörusamningi við bændur, sem heitir reyndar ,,Stefnumörkun í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt``, vill Alþingi með slíkum samningi tryggja ákveðið umfang í þessum búgreinum sem hér um ræðir, sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu? Svona mætti reyndar áfram spyrja. Það er auðvitað nauðsynlegt að kanna til hlítar hvernig hefur tekist til með framkvæmd þessa búvörusamnings um einstök atriði hans. En það sem mestu máli skiptir samt þegar upp er staðið er til hvers hefur hann leitt þegar á heildina er litið og hver er staða bænda þegar samningurinn er að renna út. Í þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir tel ég að komi nokkuð glöggt fram sú mynd sem blasir því miður afar víða við þegar farið er um sveitir landsins og bændur og bændafólk er sótt heim. Það er ljóst að mjólkurframleiðslan stendur mun betur en sauðfjárframleiðslan en samt sem áður gerir hún ekki meira en að standa í stað og þó hækka skuldir bænda í hlutfalli við eignir þeirra. Eiginfjárhlutfall búanna lækkar. Þegar maður snýr sér aftur að sauðfjárræktinni þá er myndin því miður miklu dekkri og daprari. Kannski eru það einhverjir áfangasigrar að það hafi tekist að lækka verð bænda á sauðfjárafurðum um 8%, að það hafi tekist að lækka slátur- og heildsölukostnað um 3% rúmlega og verð til neytenda hafi lækkað talsvert líka á sama tíma og verð á annarri matvöru hefur hækkað. Allt er þetta ágætt þangað til maður fer að horfa á bakhliðina á þessari medalíu. Þá kemur í ljós að launageta búanna hefur lækkað um rúmlega 25% og í flestum tilvikum er hér um beina kjaraskerðingu að ræða einfaldlega vegna þess að þó menn segi: bændur geta bara farið í eitthvað annað, snúið sér að einhverju öðru, sótt vinnu utan bús og annað og fleira í þeim dúr, þá er það bara ekki svona einfalt. Á tímum atvinnuleysis þá er ekkert annað að snúa sér, menn eiga ekki í önnur hús að venda og það er einmitt það sem er að gerast. Hagur bænda versnar og það sem þeir geta gert er að ganga á eigur sínar, þeir sem þær eiga. Hinir einfaldlega flosna upp og hverfa frá eignum og óðali slyppir og snauðir og hafa í sjálfu sér ekki annað að gera en að leita á mölina, annaðhvort á vit atvinnuleysisins eða þá ef þeir eru svo heppnir að geta fengið einhverja vinnu. Þess vegna held ég að staðan í landbúnaðinum sé því miður þannig að bændur eru einfaldlega, ekki kannski í öllum tilvikum en í allt of mörgum, að éta upp eignir sínar ef svo má að orði komast. Þeir búa við ákaflega mikið óöryggi, þeir vita ekki hvað verður næsta ár, verður enn frekari verðlækkun, verður samdráttur í framleiðsluheimildum? Svo mætti áfram telja auk þess sem EES-samningurinn og nú GATT-samningurinn hafa að sjálfsögðu ákveðið óöryggi í för með sér fyrir bændur. Þeir búa líka við það að verð á eignum er ákaflega lágt, jafnvel þó þeir vilji fara eða þurfi að fara. Það er nú svo að framleiðsluheimildirnar ganga kaupum og sölum og er ákveðið verð á framleiðsluréttinum. Það er svo að ef reiknað er gangverð á framleiðslurétti og ef slegið er lauslega á vélar og bústofn þá er oft hægt að selja jarðir með allri áhöfn og öllu sem þeim fylgir fyrir verð sem svarar til þessara tveggja þátta þannig að íbúðarhús bóndans og fjölskyldunnar, jörðin og ýmislegt annað sem henni kann að fylgja, það er í raun orðið verðlaust. Það getur ekki verið glæsilegt að losa sig við eignir sínar þegar svo er ástatt. Enda er það svo að mjög margir bændur veigra sér við að selja sínar eignir einfaldlega vegna þess að þeir fá langt undir sannvirði fyrir þær og ævistarfið er ákaflega lítils metið þegar upp er staðið, a.m.k. í krónum og aurum hvað þetta varðar. Það er heldur ekki fýsilegt fyrir ungt fólk að taka við jörðunum í mörgum tilvikum einfaldlega vegna þess að í fyrsta lagi er ljóst að það verður erfið afkoma og í öðru lagi þá er hún ákaflega ótrygg þar sem hún þó

er fyrir hendi.
    Það er líka óvissa í sveitum landsins í kjölfar EES- og GATT-samninganna einfaldlega vegna þess að það hefur ekki verið tekið á þessum málum með þeim hætti að óyggjandi sé og menn vita ekki að hverju þeir ganga og það er kannski það sem er það alvarlegasta að menn eru bara skildir eftir í óöryggi og óvissu um framtíðina, meira heldur en nauðsynlegt er því enginn veit í sjálfu sér nákvæmlega hvað framtíðin mun bera í skauti sér. Það þarf sjálfsagt að gera annan búvörusamning og halda utan um praktísk málefni ef svo má að orði komast. En það þarf að koma til í landbúnaði miklu skýrari stefnumörkun heldur en núna er og menn verða að vita að hverju þeir ganga. Það er ekki hægt að bjóða mönnum upp á það ár eftir ár að það sé stefnt að því að verð á afurðunum lækki og jafnframt verði samdráttur í framleiðslunni. Ungt fólk vill ekki kaupa framleiðslurétt jafnvel þó hann sé falur vegna þess að það veit ekki hvort hann er 10, 20 eða jafnvel 30% lægri eftir aðeins örfá ár. Það vill enginn kaupa sér verðmæti með slíkum afföllum og slíkri óvissu. Þess vegna verður að koma til miklu skýrari stefnumörkun. Það verður að koma til heildstæð stefna í landbúnaðarmálum. Hún verður að taka til þess magns sem á að framleiða, menn verða að vita að hverju þeir ganga. Hér þýðir ekkert að vera með skipulagt undanhald, það verður að spyrna við fótum og menn verða að segja: Þangað ætla ég og þarna ætla ég að vera og fyrir því verða menn síðan að berjast og taka á málinu með þeim hætti. Þetta er forsenda þess að það geti orðið eðlileg þróun í landbúnaði sem er jú öllum atvinnuvegum nauðsynleg. Það er rétt að slík stefna taki auðvitað til fjölmargra annarra þátt og hugsanlega þátta eins og að búvöruframleiðslan sé sveigð meira en verið hefur til ákveðinna landshluta eftir búgreinum o.s.frv. miðað við landkosti. Ég vil í lok máls míns spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi beitt sér fyrir úrbótum í þessum málum. Hvort hann hafi beitt sér fyrir heildstæðri stefnumörkun og hvort hennar sé von. Hvort menn sjái hana fljótlega eða hvort hann telji að þetta sé allt í eðlilegu lagi og besta gengi. Ég vil gjarnan vita hvort hæstv. ráðherra hefur beitt sér fyrir því að málum verði þannig komið að bændur geti búið við lágmarksatvinnuöryggi, að maður tali nú ekki um eðlilegt atvinnuöryggi, eða hvort bændur eigi áfarm að búa við það öryggisleysi sem verið hefur. Hvort þeir verði áfram að láta reka á reiðanum og aðeins vona það besta. Ég held að slíkt ástand sé því miður ákaflega létt í vasa bænda og og það sem er kannski enn þá verra er að það er líka létt í vasa þjóðarinnar þegar upp verður staðið og til framtíðar er litið.