Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 14:21:54 (3871)


[14:21]
     Guðmundur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki mikla ástæðu til að halda þessu orðaskaki áfram. Það hefur ekkert breyst í þessari umræðu og það hefur ekkert lýst hvað það varðar að það vantar hér, ég sagði það áðan og ég endurtek það, heildstæða stefnu í málefnum landbúnaðarins. Það er alveg sama þó menn tíundi einhverjar hugsanlegar orsakir fyrir því, það breytir ekki því að þessa stefnu vantar. Hún er forsenda þess að það sé hægt að taka á þessum málum þannig að þjóðin og bændur geti við unað.
    Ég ætla ekkert að fara að taka upp gamlar lummur og hálfviðbrenndar um SÍS og útflutningsmál og annað þess háttar. Það er löngu liðin tíð. Við verjum okkar tíma miklu betur með því að taka á vandamálunum en karpa um eitthvað gamalt sem við getum sjálfsagt aldrei orðið sammála um. (Gripið fram í.)
    Það er annað sem ég vildi einnig endurtaka: Staða bænda er þannig, alveg sama hvað hver segir og hvað hefur gerst og hvað menn hafa viljað, að þeir eru að eyða upp eignum sínum, þeir eru að éta upp eignir sínar eins og sagt er á mannamáli. Þeir hafa ekki viðunandi afkomu og hafa ákaflega fá úrræði og búa við ákaflega mikla óvissu. Þetta eru staðreyndir sem allir geta fengið að kynnast, líka hæstv. landbrh. Ef menn bara fara um sveitirnar og ræða við það fólk sem þar býr þá kemur þetta í ljós og er svo skýrt og greinilegt. Það er það alvarlega í þessu máli og það er áríðandi og mikilvægt að við snúum okkur að þessu. Við framsóknarmenn í öllum flokkum eigum að snúa bökum saman og berjast til bættra lausna í þessum málum.