Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 14:24:40 (3872)


[14:24]
     Pálmi Jónsson :
    Hæstv. forseti. Sú umræða sem hér hefur farið fram um skýrslu hæstv. landbrh. um framkvæmd búvörusamnings hefur mestan part farið hófsamlega fram. Menn hafa rætt þessi vandamál af yfirvegun og

þekkingu og það er rétt að vekja á því athygli að landbúnaðurinn er í þeirri stöðu að það er eðlilegt að ræða þau mál á þeim nótum. Út af þessu hefur að vísu aðeins brugðið og einstaka ræðumaður hefur veist að hæstv. landbrh. og talað til hans með nokkrum gusti.
    Það er sjálfsagt að gera sér grein fyrir því að núv. hæstv. landbrh. og núv. hæstv. ríkisstjórn tóku við erfiðu hlutverki. Það hlutverk var erfitt í fyrsta lagi vegna þess að það hafði gengið og hefur gengið mikil lægð yfir efnahagskerfi landsmanna. Það hefur verið samdráttur í efnahagslífinu og það hefur verið samdráttur í þjóðartekjum allt frá árinu 1988 og allt fram á síðasta ár. Þessi staða hefur auðvitað sett sitt mark á þá möguleika sem hafa verið til ráða fyrir landbúnaðinn eins og aðra í þessu þjóðfélagi. Það hefur m.a. átt þátt í því að það hefur verið allt önnur staða til að afla opinberra fjármuna til stuðnings landbúnaðinum heldur en ef veltiár væru í þjóðfélaginu. Þetta er sjálfsagt og nauðsynlegt að hafa í huga og ég hygg að allir þeir sem ræða þessi mál af einhverri yfirvegun hafi á þessu fullan skilning.
    Í annan stað þá var staða hæstv. landbrh. erfið að því leyti að hann tók við ákaflega niðurnjörvuðu og margbrotnu kerfi sem fyrri ríkisstjórnir höfðu komið á. Hann tók við búvörusamningi sem næsta ríkisstjórn á undan hafði samið um í lok síns starfstíma þó þannig að sá samningur hafði ekki í öllum greinum verið undirritaður af þáv. hæstv. fjmrh. Þær bókanir sem fylgdu með samningnum höfðu ekki, ef ég man rétt, verið staðfestar af þáv. hæstv. fjmrh. sem auðvitað veikti þær bókanir.
    Það kerfi sem komið hafði verið á af fyrri ríkisstjórnum og grundvallaðist á lagasetningu er að mínum dómi komið út í mikla blindgötu og alveg ósýnt hvort hægt sé að búa við það kerfi til nokkurrar frambúðar. Það er mín skoðun að það sé rétt sem hæstv. ráðherra sagði hér áðan að hann hafi gert grein fyrir því, sem ég hef margoft heyrt hann segja, að forsendur búvörusamningsins væru brostnar og það yrði að taka hann upp til endurskoðunar en því miður hefur, eftir því sem hann greindi hér frá, það verk ekki komist verulega áfram vegna þess að því hefur kannski ekki verið sinnt af hálfu bændasamtakanna eins og skyldi, að ganga á lagið, að grípa þá yfirlýsingu hæstv. ráðherra á lofti og taka til við að endurskoða þennan samning.
    Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þetta ástand en ég tel að það liggi fyrir að hæstv. landbrh. hefur þurft að heyja varnarbaráttu fyrir landbúnaðinn á sínum ferli vegna þeirrar stöðu sem er í þjóðfélaginu og vegna annarra orsaka sem hér hafa verið ræddar af ýmsum aðilum. Ég tel að hæstv. ráðherra hafi yfirleitt haldið vel á málum í þessari varnarbaráttu sem oft hefur verið erfið. Auðvitað má deila um einstök atriði eins og alltaf er í stjórnarathöfnum og hv. þm. geta stundum sagt að í einhverjum atriðum sé kannski hægt að gera betur. Slíkt er jafnan svo. En meginniðurstaðan er sú að eftir því sem ég þekki til hefur hæstv. ráðherra það álit að honum hafi tekist að halda vel á málum í þessari erfiðu stöðu. Hann hefur staðið mjög fast á verði fyrir hagsmuni landbúnaðarins og fyrir hagsmuni okkar Íslendinga þegar þurft hefur að takast á um ýmis ágreiningsefni er varða alþjóðasamninga sem við Íslendingar höfum verið að taka þátt í, bæði að því er varðar EES-samninginn og ekki síður að því er varðar GATT-samninginn.
    Sú staða hefur ekki alltaf verið auðveld fyrir hæstv. ráðherra því það hefur ekki alltaf verið alveg einboðið að bæði þeir sem standa núv. ríkisstjórn og þeir sem standa að málum á ýmsum stigum þess hafi verið á einu máli. En honum hefur tekist að standa þar fast á verðinum og hefur hlotið virðingu fyrir. Það er sjálfsagt að geta þess og muna eftir því að í þeirri varðstöðu hefur hann haft óskoraðan bakhjarl í hæstv. forsrh.
    Ég hjó eftir því hér í umræðum að mitt nafn var nefnt. Hv. 5. þm. Suðurl., Guðni Ágústsson, nefndi nafn mitt. Allir vita það í þessum sal að hv. þm. er manna fornlegastur í tali, að yfirbragði og háttum þegar hann stígur í ræðustól. ( ÓRG: Og hugsun.) Og hugsun, segir hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. Það er sjálfsagt rétt. En það er undarlegt með jafnforneskjulegan mann hvað honum hentar illa söguskoðun. Hvenær sem hann fer að vitna til einhverra sögulegra atriða þá má nærri því bóka að hann fer rangt með. Hann sagði hér og hafði eftir mér að sá sem hér stendur, Pálmi Jónsson, hafi á sínu fyrsta búnaðarþingi, eins og hann orðaði það, væntanlega fyrsta búnaðarþingi sem ég kem á sem ráðherra, gefið þá yfirlýsingu að samdráttarskeiði í landbúnaði væri lokið. Eins og ýmsar aðrar tilvitnanir þessa hv. þm. í söguleg atriði er þetta rangt. Ég gaf enga slíka yfirlýsingu. Á hinn bóginn gaf ég yfirlýsingu af þessu tagi á þriðja ellegar fjórða búnaðarþingi sem ég kom á sem ráðherra. Og hvað hafði þá gerst? Þá hafði það gerst að þegar ég tek við ráðherraembætti í landbúnaðarmálum þá hafði mjólkurframleiðsla í landinu verið árið áður 120 milljónir lítra en að öðru ári var hún komin niður í 103 milljónir lítra eða sem næst í samræmi við innanlandsmarkaðinn. Þetta hafði tekist með þeim stjórntækjum sem þá voru til. Á sama tíma hafði það gerst að nokkuð hafði dregið úr sauðfjárframleiðslu en ég starfaði eftir þeirri stefnu að um leið og við yrðum að draga saman mjólkurframleiðslu þannig að hún væri við hæfi innlenda markaðarins þá gætum við ekki dregið saman aðrar framleiðslugreinar landbúnaðarins að neinu verulegu marki fyrr en við hefðum aukið atvinnu í sveitum í öðrum greinum. Það var það sem ég átti við að þyrfti að haldast í hendur að atvinna ykist í öðrum greinum í sveitum samtímis því sem framleiðsla drægist saman í undirstöðuframleiðslugreinunum.
    Ég er ekki að kenna þeim sem á eftir fóru, þeim landbrh. eða þeim ríkisstjórnum sem á eftir fóru um að á þessari stefnu varð ekki framhald eða a.m.k. tókst ekki að halda slíkri stefnu því á þessum árum gátu menn ekki séð fyrir að loðdýraræktin mundi hrynja, að fiskeldið mundi í flestum greinum fara á hausinn og engin af nýgreinum landbúnaðarins mundi í rauninni standa uppi sem einhver burðarás önnur en

ferðaþjónusta. Þetta vil ég aðeins uppfræða hv. 5. þm. Suðurl. um og biðja hann að gæta sín aðeins á sögulegum atriðum þegar hann flytur yfirlýsingar í þessum ræðustól.
    Hv. 2. þm. Suðurl. talaði hér til hæstv. landbrh. af nokkrum þjósti. Hv. þm. er hæglátur maður og dagfarsprúður og allra manna hæglátastur sem eru hér á þessari samkomu og það fer honum vel. Það fer honum hins vegar ekki jafn vel þegar hann fer að tala af miklum þjósti eins og hann gerði í dag til hæstv. landbrh. vegna þess að enginn ráðherra sem farið hefur með landbúnaðarmál á síðari árum hefur komið eins í bakið á íslenskum bændum og í bakið á forráðamönnum bændastéttarinnar og hv. þm. Jón Helgason, 2. þm. Suðurl., þegar hann var ráðherra landbúnaðarmála. ( StG: Vill þingmaðurinn ekki endurtaka þetta?) Ég skal skýra í hverju þetta er fólgið. Það gerðist þegar hv. þm., þá hæstv. ráðherra, setti reglugerð við búvörulögin árið 1985. Í þeirri reglugerð var tekin upp ný viðmiðun um framleiðslu, horfið frá svokölluðu kvótakerfi og tekinn upp svokallaður fullvirðisréttur. Það voru engin tengsl höfð á milli réttar einstakra bænda í sauðfjárframleiðslu á milli fullvirðisréttarkerfisins og kvótakerfisins. Þannig var fullvirðisréttarkerfið miðað við framleiðslu á annaðhvort árinu 1983 eða 1984 en alls ekki við þann rétt sem menn höfðu áunnið sér eða fengið með kvótakerfinu. Þetta var gegn því sem hafði verið lýst yfir af forustumönnum bændasamtakanna hvað eftir annað og af þeim sem talað höfðu af hálfu íslenskra stjórnvalda, þvert gegn því og varð til þess að einstakir bændur hvarvetna um landið lentu í þeirri stöðu að þeir voru með einni undirskrift ráðherra sviptir sínum framleiðslurétti. Ég held að hv. þm. Jón Helgason verði að muna eftir þessu áður en hann fer að tala af þjósti til þeirra sem nú fara með þessi mál af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.
    Ég held að það sem skiptir máli umfram allt annað í landbúnaðarmálum sé það að framleiðsla verður að byggjast á sölu. Þess vegna segi ég enn, eins og ég hef löngum sagt, að það verður að sinna markaðsmálum umfram allt annað. Því ef við getum ekki selt þá er þýðingarlaust að framleiða. Markaðsmál verða að vera númer eitt, tvö og þrjú í öllu því sem forustumenn bænda og forustumenn af hálfu stjórnvalda beita sér í fyrir hagsmuni landbúnaðarins. Ég held að það sé engin spurning að innlendi markaðurinn sé alltaf þýðingarmestur. Þess vegna verðum við að endurtaka, ekki kannski í sama formi heldur í ýmsum tilbrigðum Íslenskt, já takk og gæta þess að leitast við að haga málum þannig að innlenda markaðnum sé sinnt, að reynt sé að þóknast duttlungum hans og bæta stöðuna gagnvart þeim sem eru neytendur í landinu, sem er öll þjóðin, og vinna þar stöðugt verk. (Forseti hringir.) Aðeins að ljúka með einni setningu, hæstv. forseti. Erlendur markaður og útflutningur er heldur ekki úr sögunni en hann verður að byggjast á sérstökum mörkuðum fyrir okkar vöru, dýrum mörkuðum sem verða að byggja á sérstæðum gæðum íslenskrar framleiðslu.