Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 15:08:33 (3881)


[15:08]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér verður það alltaf áhyggjuefni þegar ég sé hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson svona sáran og viðkvæman og dapran og ég sé, því miður, að Alþb. er að þrengja að þessu karlmenni í pólitík. Það er búið að hengja einhvern dall aftan í Alþb. með óháðum sem kannski ,,bekenna`` ekki að þessi gamli framsóknarmaður eigi þar samleið. En það var nú önnur saga.
    Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson var ekki hér í morgun. Hann veit ekkert hvað hann er að tala um. Hann er að bera upp á mig rangar sakir. Ég skammaði ríkisstjórnina hiklaust fyrir hvernig hún hefði farið með búvörusamninginn. Ég var í sjálfu sér ekki að gera annað hér. Ég sagði, hv. þm., að það væri óeðlilegt að þessi skýrsla sem Alþb. bað um, að þeir menn sem stóðu í forsvari, annar fjmrh. og hinn landbrh. á þeim tíma, væru ekki hér. Ég gerði kröfu um að þeir yrðu hér í þinginu. Ég vakti að vísu athygli á því að í búvörusamningnum, þegar kæmi að bókununum, sem hefðu kannski verið agnið sem gerði það að menn skrifuðu undir, vantaði undirskrift hæstv. fyrrv. fjmrh., Ólafs Ragnars Grímssonar. Nú hefur hv. þm. staðfest það að hann var aldrei beðinn að skrifa undir. En hins vegar sagði ég jafnframt að ég væri sannfærður um að ef Framsfl. og Alþb. hefðu náð þeirri gæfu að sitja í ríkisstjórn áfram og hefðu stýrt fleyinu síðustu fjögur ár þá hefðu þeir miðað við nýjar aðstæður í markaðsmálum landbúnaðarins endurskoðað búvörusamninginn, minnkað fjötrana sem í honum voru til þess að gefa mönnum tækifæri til að nálgast þessa nýju markaði. Fyrir utan hitt að ég er sannfærður um að ef þessir tveir flokkar hefðu verið saman þá hefði atvinnustefnan í landinu verið öðruvísi og þá hefði búvörusamningurinn kannski fremur náð því markmiði sem honum var ætlað. En að ég hafi hér verið með árásir í þá veru sem hv. þm. var að lýsa er ekki rétt.