Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 15:11:11 (3882)


[15:11]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég met þessa ræðu sem hv. þm. flutti hér og ætla í sjálfu sér ekki að hafa neina eftirmála af þessu máli. Ég tel að það sé upplýst og skýrt og liggi ljóst fyrir. Ég er þingmanninum alveg sammála um að það hefði öðruvísi verið haldið á framkvæmd þessa máls ef við hefðum setið áfram við stjórnvölinn, ég tala ekki um ef við hefðum verið einir. Auðvitað var það vandamál að vera með Alþfl. í öllu þessu verki. Það er dálítið fróðlegt, bæði fyrir áhugamenn um stjórnmál og aðra, að fletta upp í yfirlýsingum formanns Alþfl. þegar við vorum að gera búvörusamninginn á sínum tíma. Það var nú einmitt þetta nýja bandalag Jóns Sigurðssonar, þáv. viðskrh., fjmrh. Friðriks Sophussonar, utanrrh. Jóns Baldvins Hannibalssonar sem varð til þess að það varð eitt af fyrstu verkum núv. ríkisstjórnar að reyna að ónýta búvörusamninginn. Það ætlunarverk gekk hins vegar ekki upp eins og ég hef upplýst vegna þess að ríkislögmaður úrskurðaði að nafn þáv. fjmrh. á samningnum gerði það að verkum að það væri ekki hægt.
    Ég er alveg sannfærður um það að þingið hefði ekki þurft að eyða svona miklu af sínum dýrmæta tíma í deilur ef okkar stefna hefði fengið að ráða þessu áfram og landbúnaðurinn hefði haft meiri og betri möguleika til þess að sækja inn á nýja markaði. Það er auðvitað þannig að í veröldinni þar sem menn biðja um holl og heilbrigð matvæli og barátta gegn mengun er orðið eitt af höfuðviðfangsefnum þjóða um víða veröld á íslensk matvælaframleiðsla, hvort heldur er af landi eða úr sjó, mikla möguleika til þess að færa þjóðinni aukinn auð.