Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 15:14:42 (3884)


[15:14]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er misskilningur hjá hv. þm. að þáv. landbrh. Steingrímur J. Sigfússon og forustumenn bændasamtakanna hafi eitthvað gefist upp við gerð búvörusamningsins. Ég tel þvert á móti að búvörusamningurinn beri vitni um kraft, stórhug og áræði bæði forustumanna bænda og þáv. landbrh. til þess að flytja þessi mál inn á eðlilegan farveg og færa landbúnaðinum ákveðið skjól á þeim erfiðu tímum sem allir sáu að voru fram undan. Ég fullyrði það við hv. þm. að ef núv. ríkisstjórn hefði komið að þessum málum án búvörusamningsins og farið í gegnum þá umbrotatíma sem verið hafa á liðnum fjórum árum þá stæði landbúnaðurinn á Íslandi enn verr ef hann hefði ekki haft þetta skjól sem forustumenn Alþb., Framsfl. og forustumenn bændasamtakanna smíðuðu landbúnaðinum í búvörusamningnum, þann skjólgarð sem núv. hæstv. landbrh. vildi rífa á fyrstu mánuðum sínum í embætti. ( GÁ: Tek undir þetta.)