Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 15:16:06 (3885)


[15:16]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég átta mig ekki á því hvað hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni gengur til þegar hann heldur því fram fullum fetum að ég hafi ekki viljað standa við búvörusamninginn. Ég hélt að ég hefði sagt það bæði fyrir síðustu kosningar og eftir, einnig eftir að ég kom í sæti landbrh. að við hann vildi ég standa þannig að þetta er eitthvert misminni. Hitt er rétt að þannig var frá honum gengið bæði af ríkisstjórn og með öðrum hætti að þá var talið tryggara að fá um það úrskurð ríkislögmanns hver væri staða samningsins til þess að hægt væri að fylgja honum eftir og standa við hann. Þannig var það mál vaxið.
    Ég vil líka segja að það kemur mér pínulítið á óvart ef samningurinn var gerður með því hugarfari af hv. þm. og er kannski skýring á því að hann kaus að skrifa ekki undir hann allan að hann hafði hugsað sér að taka upp útflutningsbætur þegar eftir kosningarnar eins og hann gaf í skyn hér áðan þegar hann sagði að ef hann hefði áfram verið fjmrh. þá væri annað ástand á markaðsmálum landbúnaðarins og gaf fyllilega í skyn að þá hefði komið til fjárveiting úr ríkissjóði til þess að stuðla áfram að útflutningi á dilkakjöti. Nú má vel vera að það sé rétt hjá hv. þm. að það hafi fyrir honum vakað með því að skrifa ekki undir samninginn að hann hafi viljað halda útflutningsbótum áfram og má þá segja að það sé rétt og gott að það komi fram þó seint sé nú við þessar umræður.