Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 16:11:21 (3897)


[16:11]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér er frekar hlýtt til þingmanna Framsfl., eins og raunar allra minna þingbræðra hér og systra, en það er nú svo að það er eitt sem einkennir dálítið framsóknarmenn og þeir skera sig dálítið úr öðrum þingmönnum og þingmönnum annarra flokka og það er hversu auðveldlega þeir falla í þá gryfju að búa sér til áróðursklisjur og sammælast um að flytja þær sammælt, þó þar séu menn auðvitað misjafnlega vandir að virðingu sinni og sumir taka ekki þátt í þeim leik. Þá er ég að vísa til þess sem fram hefur komið hér í þessari umræðu og hv. þm. Páll Pétursson lætur sér sæma að klifa hér á enn og aftur og það er um það að hæstv. fyrrv. fjmrh. hafi ekki skrifað undir bókanir með búvörusamningi og af þeim sökum hafi eftirmaður hans auðveldlega getað svikið ákvæðin eða núv. ríkisstjórn. Menn skulu taka eftir því að hér er Framsfl. kominn af stað í kosningaleiðangurinn, í kosningabaráttuna, með þessa stöðluðu klisju sem á að hafa uppi fund eftir fund, bæ frá bæ. Það eru þessi vinnubrögð sem setja blett á Framsfl. öðrum flokkum fremur. Mér kemur það kannski ekki á óvart þó hv. þm. Páll Pétursson fari hér í sama farið og hv. þm. Guðni Ágústsson, þrátt fyrir það sem hér hefur komið fram. Þetta er leiðinlegt, það er leiðinlegt til þess að vita að þessir hv. þm. skuli ekki vera sómakærari en svo að hafa slíkt uppi. En það er líka athyglisvert og verður athyglisvert að sjá og heyra þetta hér á komandi vikum fram að kosningum og menn geta átt von á því að þetta verði haft uppi við kaffiborðin sem og á fundum og skulu búa sig undir það, bændur landsins og sveitafólk almennt.