Landgræðsla

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 17:06:36 (3912)


[17:06]
     Kristín Einarsdóttir :

    Frú forseti. Það þarf kannski ekki að bæta við mörgum atriðum. Það hefur verið gerð grein fyrir því hér í framsögu og eins í grg. með þessu frv. hver tilgangurinn er með því að leggja það fram. En ég vil aðeins leggja áherslu á atriði sem ég tel mjög mikilvægt að verði tekið inn í löggjöfina og það er líffræðilegur fjölbreytileiki eða líffræðileg fjölbreytni, eins og það er orðað í 1. gr., að viðhalda henni, því það er eitt af því sem ég held að við þurfum að vara okkur nokkuð á.
    Til þess að við getum gert okkur grein fyrir því hvaða áhrif innlendar plöntur hafa á íslenskt vistkerfi þá er mjög nauðsynlegt að gera á því rannsóknir eins og hægt er og reyna að kanna það hvaða áhrif plöntur hugsanlega geta haft í íslensku vistkerfi. Það er ekki nóg að gera sér eingöngu grein fyrir hvernig plönturnar haga sér í því vistkerfi þar sem þær hafa sín heimkynni heldur verður að líta á það hvernig þær haga sér þegar þær koma á nýja staði.
    Mig langar í því sambandi að vitna hér í útdrátt úr erindi sem Þóra Ellen Þórhallsdóttir hjá Líffræðistofnun háskólans flutti í mars á síðasta ári til þess að leggja áherslu á þetta en þar segir hún, með leyfi forseta:
    ,,Reynslan sýnir annars vegar að hegðun tegundar í sínum gömlu heimkynnum segi lítið um stöðu eða hegðun í því nýja. Og hins vegar að framandi tegundir breiðast fyrst og fremst út í opnu og óröskuðu landi en ná yfirleitt ekki fótfestu í lokuðum samfélögum. Má af því ráða að samkeppni við innlendan gróður hamlar oft útbreiðslu. Með því að kanna eiginleika íslenskra gróðurlenda má fá nokkra hugmynd um hvers konar umhverfi þau bjóða aðfluttum tegundum.``
    Síðar segir hún í þessum útdrætti: ,,Dæmin sýna að útbreiðsla nýrra tegunda getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir innlend vistkerfi. Veiti innlenda tegundin hinni nýkomnu litla samkeppni myndar hún oft víðáttumiklar hreinar breiður og útrýmir innlendum gróðri. Þetta leiðir til minni fjölbreytni eins og það hugtak er skilgreint innan vistfræðinnar hvort sem fjölbreytni er reiknuð innan samfélagsins eða yfir stærri landsvæði.``
    Þetta finnst mér mjög mikilvægt að tekið sé tillit til, ekki síst í ljósi þess að Íslendingar hafa gerst aðilar að samningnum um líffræðilegan fjölbreytileika og voru með fyrstu þjóðum til þess að undirrita þann samning. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að þetta atriði sé tekið inn í löggjöfina.
    Eins og fram kemur í grg., og ætla ég ekki nema rétt að vitna til þess á bls. 3, þá eru þar talin upp nokkur dæmi þess erlendis að innfluttar tegundir, eða þessar fimm tegundir sem settar eru inn á ný svæði sem ekki eru þeirra upprunalegu heimkynni hafa haft veruleg skaðleg áhrif. Bæði er þar um að ræða að ákveðnar jurtir hafa útrýmt öðrum jurtategundum eða jafnvel að dýrategundir hafa horfið, bæði er þá þar um að ræða skordýr en einnig eru dæmi um stærri dýr eins og t.d. fugla þar sem vistkerfið hefur breyst það mikið að bústaðir þeirra eyðileggjast. Þannig að þarna verðum við að fara að gæta okkar mjög ef við ætlum ekki að eyðileggja íslenska vistkerfið.
    Hér á landi hefur það því miður orðið svo að flutt hefur verið inn tegund, lúpínan, sem hv. 4. þm. Austurl. nefndi varla, vildi varla nefna af skiljanlegum ástæðum því að það hefur verið einkennileg deila uppi hér á landi. Mönnum hefur verið skipt í tvo hópa, með eða á móti lúpínu, eins og það heitir, og deila mjög sérkennilega þannig að ef maður efast um ágæti lúpínunnar sem landgræðsluplöntu hvar sem er á landinu þá liggur við að maður sé á móti landgræðslu. Ég ætla nú samt að leyfa mér að benda á að mjög margir hafa orðið til þess að vara við notkun lúpínunnar í þeim mæli sem hefur verið gert. Það er hægt að benda á sérfræðinga Rannsóknastofnunar landbúnaðarins sem hafa skrifað margar greinar og hafa varað við því að hún sé notuð með þeim hætti sem gert er. Þeir benda jafnframt á það að víða getur lúpínan átt við en það er allt of víða þar sem hún á alls ekki að notast þar sem hún getur breiðst yfir mjög stór landflæmi og ræðst ekki neitt við neitt og útrýmir öðru gróðurfari. Þetta höfum við dæmi um og til þess að ég þurfi nú ekki að lýsa því með mínum eigin orðum, þó að ég vildi það gjarnan, þá langar mig til að vitna hér í grein eftir Borgþór Magnússon sem er sérfræðingur á Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Hann hefur reyndar skrifað mjög margar greinar en það er ein grein hér sem mig langar til að vitna til sem er reyndar úr skýrslu um starfsemi Rannsóknastofnunar landbúnaðarins þar sem hann talar um, með leyfi forseta, ef ég má vitna orðrétt í það sem hann segir:
    ,,Í lúpínubreiðunni verða miklar breytingar á jarðvegi og öðrum umhverfisaðstæðum. Hafi einhver gróður verið fyrir á landinu hverfur hann í skugga lúpínunnar og býr þar við þröng kjör þrátt fyrir aukna frjósemi jarðvegs.``
    Og aðeins síðar: ,,Smám saman myndast síðan samfellt botnlag í breiðunni og á það ásamt skuggaáhrifum þátt í að útrýma þeim gróðri sem fyrir var á landinu. Á þessu stigi er lúpínan nær einráð í gróðurfari breiðunnar.`` Hann er að lýsa þarna framvindunni hvernig hún hegðar sér.
    Þarna getur með því að nota plöntur, hvort sem þær heita nú lúpína eða eitthvað annað sem er allsráðandi og fer yfir gróið sem ógróið land, haft mjög víðtæk áhrif til að raunverulega útrýma öðrum gróði og e.t.v. dýralífi líka. Og þess vegna verðum við að fara ákaflega varlega og í ljósi þess tel ég mjög nauðsynlegt að setja hið fyrsta ákvæði inn í núgildandi landgræðslulög að því er varðar þetta atriði. Og þess vegna tel ég mjög mikilvægt að frumvarp sem þetta verði samþykkt.
    Ég hefði gjarnan viljað sjá miklu fleiri breytingar á landgræðslulögum en ég tel að í ljósi þess hve stuttur tími er til stefnu að þá sé það útilokað. Að vísu er nokkuð síðan þetta frv. var lagt fram en ekki hefur verið hægt að mæla fyrir því fyrr en nú. En legg hins vegar áherslu á að það þurfi heildarendurskoðun á lögum um landgræðslu eins og fram kemur hérna í grg. með þessu frv. og fram kom í máli hv. 1. flm. Ég tel að þetta sé ekki það flókið frv. og það ætti að vera það mikil samstaða um efni þess að það þurfi ekki að taka langan tíma fyrir nefnd að athuga hvort hún getur ekki fallist á frv. Það hefur verið haft samband við ýmsa aðila sem hafa lýst ánægju sinni með að slík ákvæði komi inn í núgildandi lög og ég vil líka meina að þetta sé í samræmi við þær skuldbindingar sem Ísland hefur tekið á sig þannig að það ætti ekki að vefjast fyrir Alþingi að taka þessi ákvæði inn í núgildandi landgræðslulög á þessu þingi.