Landgræðsla

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 17:19:09 (3914)

[17:19]
     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka þær ábendingar sem hér hafa komið fram og undirtektir hæstv. landbrh. sem mér fannst taka mjög jákvætt undir efni þessa máls sem hér er flutt. Og það sem kom fram frá hv. 3. þm. Reykn., um hvernig með skuli farið og hversu margir skulu kvaddir til að meta hugmyndir um nýjar tegundir til landgræðslu, þá er þetta eitt af því sem verður að teljast álitaefni. Ég bendi hins vegar á til stuðnings þeirri tillögu sem liggur fyrir í þessu frv. að ég held það skipti verulegu máli að þeir aðilar sem samkvæmt eðli máls telja sig hafa orð að segja um þessi efni, og ég held að það gildi um alla þessa fjóra sem hér eru, að það sé æskilegt að þeir komi að málinu. Ég hef ekki svo mikinn ótta af því að menn fari að taka á þessu á einhverjum öðrum forsendum heldur en samkvæmt bestu sérfræðinga og bestu manna yfirsýn. Ég held að það sé einmitt sú nálgun sem við þurfum og það hugarfar sem við þurfum að rækta í sambandi við innflutning tegunda inn í okkar lífríki, að reisa ekki múra og tortryggni heldur reyna að eyða því. Og hér er vikið að því að ef nauðsyn sé talin á þá eigi í samvinnu við Landgræðslu ríkisins að beita sér fyrir rannsóknum á viðkomandi tegund og hegðun hennar. Með svona vinnubrögðum ætti að mega koma í veg fyrir eða a.m.k. að minnka óvissu verulega og koma í veg fyrir deilur.
    Ég held að það sem hafi skort á sé einkum og sér í lagi að þessi mál hafi haft farveg í stjórnkerfinu og mönnum hafi þótt með réttu að það væri gengið ógætilega fram í sambandi við málið. Menn hefðu þar of rúman rétt, sem er raunar svo rúmur að þessu leyti að það þarf enginn að spyrja kóng eða prest í okkar landi áður en hann fer að dreifa framandi tegund út í umhverfið, eða þannig líta menn á og það er erfitt að finna beina leiðsögn í lögum þar að lútandi.
    Þannig að ég held að þetta sé skynsamlegt sem hér er lagt til með frv. Ég vísa hins vegar til þess að landbrh. er ætlað í samráði við umhvrh. að setja nánari reglugerð um framkvæmd 1. mgr. 2. gr. sem hv. þm. vék sérstaklega að og þar er auðvitað hægt að kveða á um nánari útfærslu. Og mér þykir það mjög góðs viti að hv. þm. Árni M. Mathiesen á sæti í landbn. og hefur unnið að þessu máli í starfshópi sem skilaði sameiginlegri niðurstöðu og treysti því að það verði til að greiða fyrir skoðun málsins og afgreiðslu. Ég þakka fyrir.