Skattgreiðslur af útflutningi hrossa

86. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 15:24:46 (3924)



[15:24]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 14. þm. Reykv. fyrir að taka þetta mál upp og sömuleiðis hæstv. fjmrh. fyrir svörin. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að á þessu máli sé tekið hér í þessari virðulegu stofnun og bæði fyrirspurnin, umræðurnar sem fram hafa farið og einnig þær upplýsingar sem fram hafa komið frá hæstv. fjmrh. skapa grundvöll til þess að taka þessi mál í heild föstum tökum. Og ég er sannfærður um það að þeir sem eru að flytja út hross hafa beinlínis áhuga á því að þessi mál séu sett í skipulegri farveg en verið hefur. Mér finnst að í framhaldi af þessari fyrirspurn og þeirri umræðu sem hér hefur farið fram og svörum hæstv. fjmrh. sé rétt að hvetja til þess að fjmrh. og skattayfirvöld efni til skipulegs samstarfs við samtök hrossabænda um hvernig haldið verður utan um þessi mál í heild vegna þess að það er alveg óhjákvæmilegt að þessi grein fái starfsskilyrði sem eru þannig að hún geti staðið upprétt gagnvart skattyfirvöldum og þjóðinni allri.