Skattgreiðslur af útflutningi hrossa

86. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 15:27:22 (3926)



[15:27]
     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég minntist á það í upphafi máls míns hér áðan að 11 milljarða vantaði í ríkissjóð ár hvert vegna skattsvika. Það kemur í ljós að með útreikningi hæstv. fjmrh., og ég vil þakka fyrir hans svör þó ófullkomin væru, telur hann strax upp næstum því fyrsta milljarðinn. Nú er auðvitað alveg ljóst að þetta verð sem hann hefur fengið upplýsingar um er alrangt og er miklu hærra. En hvað um það.
    Auðvitað vil ég taka undir með öðrum hv. þm. að ég er ekki með þessari fyrirspurn að væna hrossabændur um að vera verri skattsvikarar en hverjir aðrir eru og það er hálfraunalegt að menn skuli segja hér í ræðustól á hinu háa Alþingi að í þessu séu svo sem allir, og menn hafa farið hér með flauelshönskum um þetta mál sennilega í aðdraganda kosninga svo að við tölum ekki um hrossabændur sem einhverja verri skattsvikara en aðra. Ég hef síður en svo á móti því að atvinnuvegir blómstri og menn hafi arð af sínum atvinnugreinum en við eigum öll að greiða hlut okkar í rekstur samfélagsins. Það eiga auðvitað hrossabændur að gera líka. Þá fyrst geta menn eins og hv. 9. þm. Reykv. sagði áðan, staðið uppréttir og horft í augu hver annars. Það getur ekki lengur neinn í þessu þjóðfélagi vegna þess að það eru allir að svindla á samfélaginu.
    Ég vil aðeins segja hv. 6. þm. Norðurl. e. að hann sneri út úr máli mínu því að mér var alveg ljóst að ég var ekki að tala um skatta heldur gjöld í stofnverndarsjóð þeirra kynbótahrossa sem virðast skila milli 4--5 millj. í sölu. Það eru auðvitað fæst af þessum dýrum sem eru í svo háu verði en það er alveg ljóst að hæstv. fjmrh. ætti að spyrja fólk sem betur veit um meðalverð þeirra hrossa sem flutt eru út. Síðan koma öll þau kaup og sala á hrossum milli manna í okkar landi sem koma hvergi fram heldur. Ég tel þess vegna, hæstv. forseti, að ég hafi minnt hæstv. fjmrh. á að hér er nokkra fjármuni að sækja upp í þá 11 milljarða sem landar okkar svíkjast um að borga skatt af.