Skattgreiðslur af útflutningi hrossa

86. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 15:30:13 (3927)



[15:30]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Það er mun að sjálfsögðu vera gert að þessar upplýsingar fari til skattyfirvalda, það er alveg sjálfsagt. Það er eindregið hvatt til þess að það verði um að ræða samstarf þeirra og hrossaútflytjenda. Mér finnst það sjálfsagt. Með því er þó ekki verið að segja af minni hálfu að það sé sérstakur grunur á skattsvikum hrossaútflytjenda. Það liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um það og ég vara menn við að draga of víðfeðmar ályktanir af þeim tölum sem hér hafa verið birtar. Ég vil hins vegar nota tækifærið hér til þess að mótmæla því sérstaklega sem kom fram hjá hv. 5. þm. Suðurl. um skattsvik því að ég hygg að það hafi aldrei fyrr verið jafnmikið tekið á þeim málum eins og nú hjá hæstv. ríkisstjórn. Skatteftirlit hefur verið hert og auknar skattrannsóknir. Það hefur verið stofnað sérstaklega til embættis skattrannsóknarstjóra ríkisins. Bókhaldslög hafa verið endurskoðuð og einmitt núna er verið að ræða í hv. efh.- og viðskn. um viðurlög sem þurfa að fara í bókhaldslögin. Það sama á við um almennu hegningarlögin. Við vorum í dag að vísa til nefndar frv. um það efni. Það liggur fyrir frv. um refsiákvæði í skattalögum. Allt þetta hefur verið gert í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það hefur verið unnið gegn svartri atvinnustarfsemi aldrei meira en nú. Það hefur verið hækkað reiknað endurgjald hjá sjálfstætt starfandi einstaklingum. Það eru skýrari reglur um rekstrarkostnað nú en áður og með skattframtölum fylgja nú upplýsingar til að ná fram hugarfarsbreytingu varðandi skattsvik.
    Þetta allt nefni ég hér til sögunnar til að sýna að það hefur meira verið unnið að þessum málum heldur en ætíð áður, enda er það þannig að formaður Dagsbrúnar, Guðmundur J. Guðmundsson sá ástæðu til þess um daginn að nefna það sérstaklega að núv. fjmrh. hefði unnið mun betur að þessum málum en fyrirrennarar hans.