Fasteignamat ríkisins

86. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 15:35:53 (3929)



[15:35]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni gamall kunningi og það er hárrétt hjá hv. þm. að hún hefur áður flutt fyrirspurn þessa efnis og fékk þá svör sem ég hygg að munu lítið breytast í þessu svari. Ég kannast vel við það og get kvittað fyrir það hér og nú að hafa fengið ályktanir frá hinum og þessum samtökum á Vestfjörðum, þar á meðal Fjórðungssambandi Vestfjarða, um þetta mál þar sem beinlínis er farið fram á það að skrifstofa verði sett í umdæminu. Það hafa verið reyndar mismunandi skoðanir á því hvar þá ætti að setja þá skrifstofu niður. Bolvíkingar hafa beðið um slíka skrifstofu og eins Ísfirðingar.
    Varðandi fyrri lið spurningarinnar er því til að svara að engin ákvörðun hefur verið tekin um að breyta þjónustu Fasteignamatsins við Vestfirðinga. Það er rétt að í umræðum um Fasteignamatið hefur komið til tals hvort skynsamlegt væri að flytja þjónustuna til Borgarness, en um það hefur engin ákvörðun verið tekin, enda hníga sterk rök að því að það væri öndvert hagsmunum Vestfirðinga.
    Það sem á hefur verið bent í þessum viðræðum og umræðum er að skrifstofan í Borgarnesi er fulllítil til þess að um verulega hagkvæmni sé að ræða og þess vegna hafa ýmsir aðilar þar á meðal aðilar innan Fasteignamatsins talið koma til greina að flytja saman á einn stað þá í Borgarnes þjónustuna fyrir Vestfirði og Borgarnes. En eins og ég segi þá stendur það ekki til og verður ekki gert a.m.k. á þessu kjörtímabili.
    Þetta svarar reyndar síðari hlutanum einnig því að þar er spurt hvort orðið verði við óskum Vestfirðinga um að starfsemin verði flutt til Vestfjarða. Það eru engin áform uppi um það. Ég skal þó geta þess að það hefur breyst frá því að síðast var spurst fyrir um þetta mál að frá og með síðustu áramótum var skipuð stjórn yfir Fasteignamatið sem m.a. hefur það hlutverk að yfirfara rekstur og þjónustu stofnunarinnar við landsmenn. Í stjórn sitja auk fulltrúa fjmrh. fulltrúi tryggingafélaga og fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga. Það hefur þegar verið skipuð þessi stjórn og ef ég man rétt er fulltrúi tryggingarfélaganna Sigmar Ármannsson lögfræðingur og fulltrúi sveitarfélaganna Ólafur Sverrisson sveitarstjóri og fulltrúi fjmrn. Þórhallur Arason skrifstofustjóri. Eðlilegt er að stjórnin leggi mat á og skoði með hvaða hætti stofnunin getur best rækt hlutverk sitt gagnvart landsmönnum, ekki síst gagnvart landsbyggðinni. Í því sambandi má benda á jafnframt, ég held að ég fari rétt með að það er ein skrifstofa fyrir bæði Norðurland eystra og Norðurland vestra, ein og sama skrifstofan, þannig að það er ekki einhlítt að í öllum kjördæmum landsins séu skrifstofur á vegum Fasteignamats ríkisins. Það er þó ekkert lögmál en það verður auðvitað að gæta þess að reksturinn sé hagkvæmur og þannig vill til að þegar um er að ræða starf eins og þetta að fulltrúar viðkomandi skrifstofu þurfi að vera mikið á ferðinni til þess að skoða húseignir og það kann í kjördæmum þar sem um er að ræða erfiðar samgöngur að vera erfitt að komast af með 1--2 menn á slíkri skrifstofu. Eitt af því sem þess vegna kemur til greina að skoða fyrir hina nýju stjórn er hvort hægt sé að efna til samstarfs við heimamenn og þá hvort einhver stofnun á vegum heimamanna sé tilbúin til þess að eiga slíkt samstarf við slíka skrifstofu að um hagkvæmni í rekstri sé að ræða umfram það sem nú er þegar þessari starfsemi er sinnt héðan frá Reykjavík. Þetta þarf að kanna en umfram allt liggur ekki fyrir nein ákvörðun þess efnis af minni hálfu að færa starfsemi þá sem snertir Vestfirði til Borgarness og ég tel og ég skal fullyrða að það verður ekki gert á meðan ég er fjmrh., a.m.k. ekki á þessu kjörtímabili því að það er víst ekki hægt að gefa frekari yfirlýsingar því að enginn veit nema maður verði fjmrh. fram yfir aldamótin en það getur auðvitað margt gerst á þeirri leið.