Fasteignamat ríkisins

86. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 15:40:44 (3930)



[15:40]
     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Mér finnst miður að heyra það að hæstv. fjmrh. skuli taka svona afdráttarlaust ákvörðun um þetta. Það er kannski frekar hægt að sætta sig við þótt þetta yrði ekki á þessu kjörtímabili en verður maður þá að vona að hann verði ekki í embætti áfram eða hvað?
    Það er eitt sem ég vil á þessum stutta tíma koma á framfæri. Það er talað um hagkvæmni og það þurfi fleiri störf til þess að renna stoðum undir Fasteignamat t.d. vestur á fjörðum og Ísafirði. Ég vil minna á það að nú eru komnar nýjar reglur um sameiginlegt fasteignamat og brunabótamat. Það styður mjög að þessi starfsemi færist vestur. Ég minni líka á það að Fjórðungssamband Vestfjarða hefur ítrekað sent ályktanir og bæjarstjórn Ísafjarðar sömuleiðs svo að ég fullyrði að Fasteignamatið er aufúsugestur vestur á fjörðum og ég tel mjög líklegt að hægt verði að koma við samstarfi eða á annan hátt samvinnu til þess að liðka fyrir því að þessi skrifstofa geti starfað á Ísafirði og ég skora á hæstv. fjmrh. að endurskoða þessa yfirlýsingu og styðja með okkur að því að þetta umdæmi sem er sjálfstætt umdæmi meira að segja í símaskrá færist vetur á firði.