Fasteignamat ríkisins

86. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 15:42:10 (3931)



[15:42]
     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin þó að ég sé ekki ánægð með þá afstöðu hans að hann sé ákveðinn í að stuðla ekki að því að Fasteignamatið komi upp þjónustufulltrúa á Vestfjörðum.
    Í Fasteignamati ríkisins skýldu menn sér nokkuð á bak við það fyrir tveimur árum síðan að það væri óhagkvæmt að flytja þetta til Hólmavíkur eins og þá var lögð áhersla á. Ég hygg að sú áhersla hafi minnkað þannig að það gæti þá eins verið um það að ræða að umboðið væri sett upp á Ísafirði en það var það sem Fasteignamatið setti fyrir sig fyrir um það bil 2--3 árum síðan.
    Hvað það varðar að það sé ekki nógu hagkvæmt að flytja Fasteignamatið vestur þá vil ég aftur minna á að í skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning 1993 segir um Fasteignamatið að það hafi ekki verið gerð nein hagkvæmniathugun á því hvernig beri að haga matsstörfum á þeim stöðum sem Reykjavíkurdeildin sinnir úti á landi og Reykjavíkurdeildin sinnir einmitt Vestfjörðum þannig að það hefur engin athugun verið gerð á því og svo í öðru lagi að það hefur verið farið í mikil tölvukaup hjá þessari stofnun núna síðustu ár. Það var byrjað að tölvuvæða þar 1991, einmitt á sama ári og ég byrjaði að minna á þetta. Þá var keyptur tölvubúnaður fyrir 12,6 millj. kr. en þarfagreining vegna verkefna Fasteignamatsins hafði ekki farið fram. Að sögn forráðamanna vannst ekki tími til að gera þarfagreiningu áður en farið var í þessi tölvukaup. Það fór ekkert útboð fram vegna vinnu verktaka í tölvuvæðingunni heldur fyrr en 1. apríl 1993 þegar tölvuvæðingin var komin langt á veg. Þetta skýtur nú stoðum undir það að rekstur þessarar stofnunar sé a.m.k. með þeim hætti að það sé full þörf á því að endurskoða hann og þá með það markmið í huga að stofnunin þjóni þeim sem hún á með sínu hlutverki að þjóna en sé ekki bara í einhverjum tövluleik og þess háttar inni í stofnuninni.