Krónutöluhækkun á laun

86. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 15:44:53 (3932)

[15:44]
     Fyrirspyrjandi (Hermann Níelsson) :
    Virðulegi forseti. Ég flyt fyrirspurn til hæstv. fjmrh. um krónutöluhækkun á laun. Það fer ekki milli mála að samningar eru lausir um kaup og kjör launafólks. Þá skiptir máli hver afstaða fjmrh. er til lífskjara og launajöfnunar í þjóðfélaginu.
    Prósentuhækkanir undanfarinna ára upp allan launastigann hafa veikt stöðu þeirra lægst launuðu og skilið þá eftir nánast undir fátæktarmörkum. Þessu þarf að breyta og rétta hlut þeirra í komandi kjarasamningum.
    Ríkisstjórnin hefur lýst yfir því að svigrúm sé til kauphækkana. Það svigrúm á tvímælalaust að nýta til kjarajöfnunar að mínu mati. Besta leiðin er jöfnuð krónutöluhækkun á laun, hækkun skattfrelsismarka og sérstök launauppbót á lægstu laun til viðbótar. Því spyr ég hæstv. fjmrh.:
    ,,Telur ráðherra koma til greina að veita samninganefnd ríkisins heimild til að semja um krónutöluhækkun á laun í stað prósentuhækkunar launa í komandi kjarasamningum?``