Krónutöluhækkun á laun

86. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 15:52:25 (3936)



[15:52]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst endurtaka það sem ég sagði fyrr að ekkert er því til fyrirstöðu að samninganefnd ríkisins taki þátt í samningum þar sem farin verður önnur leið en hækka laun almennt með prósentuhækkunum. Ég benti á það eins og hefur komið fram að við höfum gert þetta á undanförnum árum með svokölluðum eingreiðslum sem koma til skjalanna einu sinni, tvisvar eða þrisvar á ári og koma með mestum þunga til þeirra sem lægst hafa launin og minnstar tekjur almennt.
    Það er alveg rangt sem kemur fram hjá hv. 9. þm. Reykv. að það sem ég hef sagt hér eða áður jafngildi því að ég virði ekki samningsrétt opinberra starfsmanna og kennara. Hins vegar er vinsælt að snúa út úr með þessum hætti og hv. þm. er ekki einn um það því að því miður hafa sumir forustumenn Kennarasamtakanna haldið því fram að fjmrh. hafi lýst yfir því að hann sé ekki tilbúinn til að tala við þessa aðila. Þetta er alrangt. Viðtöl hafa verið í gangi, samningaviðræður hafa verið í gangi og það hefur verið unnið sleitulaust í vinnuhópum til þess að kortleggja vandamálið og fikra sig nær lausn í málinu því að öllum er ljóst hve mikilvægt er að komast hjá því að verkfall skelli á.
    Áherslan hefur auðvitað fyrst og fremst legið í því að kanna hvort hægt sé að breyta vinnutímanum sérstaklega og það vitum við að kann að kosta ríkissjóð fjármuni en getur komið öllum vel, ekki síst nemendum, foreldrum og kennurum að gerðar verði slíkar breytingar því að ég hygg að skólatíminn sé ekki nægilega vel notaður. Ég veit að mjög margir eru sammála um það, þar á meðal stór hópur kennara sem viðurkennir að skólaárið er ansi gisið og það hefur verið að gisna á undanförnum árum, m.a. af kjaralegum ástæðum. Á þessu hafa menn haft skilning og viljað skoða.
    Hins vegar er erfiðara að eiga við launaflokkabreytingar því að þær geta haft í för með sér fordæmisgildi við samninga annarra stétta. Á þetta benti ég mjög rækilega þegar ég átti ágætar og vinsamlegar viðræður við forustumenn kennara mjög snemma á þessu ári eða nánar tiltekið 5. janúar. Þá gerði ég forustumönnum kennara einnig ljóst að ég teldi óráðlegt af þeirra hálfu að boða til verkfalls með þessum hætti svo snemma því slíkt gæti tafið fyrir því að lausn fyndist á almenna vinnumarkaðinum og þess vegna gert stjórnvöldum erfitt fyrir um samninga, enda hljóta allir sanngjarnir menn að sjá hve erfitt það er fyrir fráfarandi ríkisstjórn að gera samninga um verulegar launabreytingar hjá einstökum hópum.
    Virðulegi forseti. Ég vil í lok máls míns segja það að í samningaviðræðum við kennara er ekki verið að taka tillit til þeirra frumvarpa sem liggja fyrir. Við horfum algerlega frá því. Það frv. getur hins vegar haft áhrif í næstu lotu en þær viðræður sem nú fara fram miðast eingöngu við það ástand sem ríkir nú í málefnum kennara og ríkisins.