Aðstaða fatlaðra nemenda í Menntaskólanum við Hamrahlíð

86. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 15:56:23 (3937)

[15:56]
     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Á haustdögum spurðist það út á öldum ljósvakans að nokkrum fötluðum nemendum hefði verið vísað frá skólavist í Menntaskólanum við Hamrahlíð, fyrst og fremst vegna þess að þar var ekki aðstaða eða möguleikar til að sinna þeim sem skyldi og kom það fram frá forráðamönnum skólans að þeir teldu að hér væri auðvitað um algeran neyðarkost að ræða.
    Menntaskólinn við Hamrahlíð hefur fyrir þó nokkrum árum verið útbúinn að nokkru leyti þannig að hann getur tekið við fötluðum nemendum frekar en aðrir framhaldsskólar á Reykjavíkursvæðinu og ég hygg að segja megi að Menntaskólinn við Hamrahlíð hefur sinnt þessum skyldum sínum mjög vel og eigi þakkir skildar fyrir það.
    Hins vegar eru málin þannig að að því er varðar möguleika fatlaðra nemenda og nemenda með sérkennsluþarfir í framhaldsskólum yfirleitt ríkir algert stefnuleysi í landinu. Ýmsir skólar hafa tekið á málum hjá sér eins og Fjölbrautaskólinn á Sauðárkróki og Menntaskólinn við Hamrahlíð, en í það heila tekið er ekki hægt að segja að um neina heildarstefnumótun sé að ræða í þessum málum. Það ber að harma vegna þess að það er alveg ljóst að með vaxandi fjölda nemenda í framhaldsskólum verður jafnframt vaxandi þörf fyrir sérstaka aðstöðu fyrir fatlaða nemendur og fyrir ákveðin sérkennsluúrræði.
    Vegna þessara tíðinda sem þarna komu upp og líka vegna þess, hæstv. forseti, að í fyrirliggjandi framhaldsskólafrv. er ekki sérstaklega fjallað um sérkennslu í framhaldsskólum eða kennslu fatlaðra í framhaldsskólum taldi ég rétt að bera fram fyrirspurn til hæstv. menntmrh. á þskj. 359 um aðstöðu fatlaðra nemenda í Menntaskólanum við Hamrahlíð og er fyrirspurnin á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:
    Hvernig var leyst úr vanda þeirra fötluðu nemenda sem sóttu um skólavist í Menntaskólanum við Hamrahlíð sl. haust en var vísað frá vegna óviðunandi aðstöðu í skólanum? Hafa þeir fengið skólavist annars staðar?
    Hvaða hugmyndir hefur menntamálaráðuneytið um að bæta aðstöðu í Menntaskólanum við Hamrahlíð þannig að skólinn geti í framtíðinni sinnt því hlutverki að taka við fötluðum nemendum og um leið bæta þjónustuna við þá sem fyrir eru?
    Svo leyfi ég mér að bæta við þriðju spurningunni sem er þessi: Er í menntmrn. unnið að stefnumótun varðandi aðstöðu fatlaðra nemenda í framhaldsskólunum yfirleitt?