Flutningur tónlistar og leikhúsverka í sjónvarpi

86. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 16:08:07 (3942)


[16:08]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. spyr hvort hafinn sé undirbúningur að framkvæmd þingsályktunar Alþingis frá 6. maí 1994 um flutning tónlistar- og leikhúsverka í sjónvarpi. Með þessari þál. var menntmrh. falið að leita leiða til að stuðla að því að leikhúsverk og tónlistarflutningur Sinfóníuhljómsveitar Íslands og aðrir merkir tónlistarviðburðir skili sér betur til sjónvarpsáhorfenda en verið hefur.
    Undirbúningur framkvæmdar þessarar þingsályktunar hófst með því að menntmrn. óskaði eftir afstöðu Ríkisútvarpsins, Sinfónínuhljómsveitar Íslands, Bandalags ísl. listamanna, Íslenska útvarpsfélagsins hf. og Þjóðleikhússins til málsins. Einungis Ríkisútvarpið og Sinfóníuhljómsveitin hafa sent ráðuneytinu umsögn sína. Ráðuneytið væntir þess hins vegar og mun reka á eftir því að umsagnir annarra aðila berist og í framhaldi af því verði boðað til fundar með þessum aðilum til þess að ræða einstök atriði.
    Þá spyr hv. þm. hvort ráðherra telji mögulegt að hægt verði að framfylgja þeirri ályktun fyrir árið 1996 þegar 30 ár verða liðin frá fyrstu útsendingu íslenska sjónvarpsins. Því er til að svara að tímalega séð ætti að vera hægt að framfylgja ályktuninni en þess ber þó að geta varðandi Ríkisútvarpið sérstaklega að afstaða þeirrar stofnunar er sú að hvorki sinfóníutónleikar né leikhúsverk sem flutt eru á sviði séu kjörin

sem sjónvarpsefni í stórum stíl. Ríkisútvarpið telur mikilvægara að þróa og efla gerð leikins efnis fyrir sjónvarp en upptökur af sviðsleik í leikhúsum þó að sinna mætti slíku samhliða. Þá telur Ríkisútvarpið að sjónvarp sé ekki hentugur miðill fyrir hefðbundna tónleika sakir einhæfni í mynd og takmarkaðra hljómgæða í viðtækjum. Efni af þessu tagi hefur þó ávallt verið sýnt í sjónvarpi Ríkisútvarpsins og svo verður áfram að sögn forsvarsmanna Ríkisútvarpsins.
    Það skal sérstaklega áréttað að ákvörðun um dagskrárefni er lögum samkvæmt á hendi stjórnenda Ríkisútvarpsins og ráðuneytið leggur áherslu á að það forræði sé virt.
    Að fengnum umsögnum annarra aðila, sem ég vonast eftir að skili sér og umsögnum sem mál þetta varðar, tel ég rétt að efna til viðræðna milli þessara aðila um áherslur og framkvæmd eins og áður segir og að Alþingi fái þá skýrslu um niðurstöður þeirra viðræðna.