Samstarf Alþýðuskólans á Eiðum og Menntaskólans á Egilsstöðum

86. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 16:18:34 (3946)


[16:18]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Eins og vitað er hefur staða hinna gömlu héraðsskóla verið ótrygg víða um land sl. ár þar sem þessir skólar falla hvorki undir gildandi lög um grunnskóla né framhaldsskóla. Auk þess hefur sókn nemenda í þessa skóla farið dvínandi eftir því sem framhaldsskólar á landsbyggðinni hafa eflst og fleiri grunnskólar hafa tekið upp kennslu nemenda í unglingadeildum.
    Að frumkvæði Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi skipaði ég samstarfsnefnd sem skipuð var fulltrúum framhaldsskólanna, sveitarstjórna og menntmrn. til að gera tillögur um framtíðarskipan framhaldsnáms í fjórðungnum. Nefndin skilaði áfangatillögum sumarið 1993 og lokatillögum í nóvember 1994. Þar er m.a. lagt til að Alþýðuskólinn á Eiðum og Menntaskólinn á Egilsstöðum verði sameinaðir í eina stofnun með einni skólanefnd.
    Að frumkvæði skólamanna á Eiðum fóru fram á sl. hausti umræður milli fulltrúa Alþýðuskólans og fulltrúa Menntaskólans á Egilsstöðum um hugsanlegt samstarf eða samruna skólanna. Þessir aðilar báðu síðan um fund með menntmrn. og sá fundur var haldinn í desember sl.
    Í framhaldi af tillögum samstarfsnefndarinnar og þeim viðræðum sem átt höfðu sér stað að frumkvæði heimamanna fól ég þremur fulltrúum menntmrn. að vinna frekar að málinu og m.a. að undirbúa fyrirhugaða sameiningu skólanna. Það er stefnt að því að sameiningin hafi þá átt sér stað fyrir upphaf næsta skólaárs.
    Í samvinnu við heimaaðila er fulltrúum ráðuneytisins einnig ætlað að marka stefnu um námsframboð og þjónustuhlutverk framhaldsskólanna á Héraði, svo og að vinna að gerð samnings um aðstöðu og frekari uppbyggingu framhaldsskóla á Fljótsdalshéraði.
    Þetta er svar mitt við fyrstu spurningunni. Annarri og þriðju spurningu vil ég svara þannig að það þykir rétt að kanna náið tillögur heimamanna um samnýtingu á kennslu og heimavistarhúsnæði en tillögurnar gera á þessu stigi ráð fyrir að um verði að ræða eina skólastofnun. Þannig er ljóst að allt námsframboðið mun lúta sameiginlegri stjórn þó svo að stefnt sé að áframhaldandi skólahaldi bæði á Eiðum og Egilsstöðum.
    Þá er spurt hvenær ákvörðun um samstarf skólanna muni liggja fyrir með tilliti til kennslu í haust. Það er lögð áhersla á að hraða þessari vinnu svo sem kostur er og stefnt að því að ákvörðun liggi fyrir á vormánuðum þannig að auglýsa megi nýtt skipulag og e.t.v. breytt námsframboð með nægum fyrirvara fyrir næsta skólaár.
    Að lokum er svo spurt hver verði staða Alþýðuskólans á Eiðum ef ekki verði af því samstarfi sem hér er um rætt. Það er ljóst að þessar tillögur miða ekki síst að því að tryggja áframhaldandi skólahald á Eiðum og nýtingu þess mikla húsnæðis sem þar er fyrir hendi. Verði hins vegar ekki af þessari sameiningu þarf að kanna betur hvernig tryggja megi stöðu Alþýðuskólans til frambúðar.
    Ég læt að lokum í ljós þá von að samkomulag takist milli ráðuneytisins og heimamanna um þennan samruna skólanna og þykist raunar vita að um það sé áhugi á Héraði og um áhuga ráðuneytisins þarf ekkert að efast.