Embættisfærsla umhverfisráðherra

87. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 16:28:09 (3952)


[16:28]
     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um skipun rannsóknarnefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til að kanna embættisfærslur umhvrh. gagnvart starfsmönnum embættis veiðistjóra í tengslum við ákvörðun hans um flutning embættisins. Flm. að þessari tillögu með mér eru eftirtaldir hv. þm.: Finnur Ingólfsson, Jón Helgason, Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Einarsdóttir og Svavar Gestsson.
    Texti tillögunnar er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar með vísan til 39. gr. stjórnarskrárinnar að kjósa skuli nefnd níu alþingismanna til að kanna embættisfærslu umhverfisráðherra gagnvart starfsmönnum embættis veiðistjóra í tengslum við ákvörðun hans um flutning embættisins frá Reykjavík. Áhersla skal lögð á að kanna réttarstöðu starfsmanna. Nefndin skal skila Alþingi skýrslu um málið fyrir 31. janúar 1995.``
    Þetta er efni tillögunnar en eins og fram kemur hefur dregist að tillagan kæmist á dagskrá og til umræðu. Hún var lögð fram í þinginu 26. okt. sl. og aðstæður hafa verið þannig að það er fyrst nú sem hún kemur á dagskrá. Sumpart var það vegna þess að ég hafði varamann inni á þingi og einnig að hæstv. umhvrh. var fjarverandi um skeið fyrir jól.
    Það er nauðsynlegt, virðulegur forseti, að fara yfir helstu atriði sem tengjast þessum tillöguflutningi sem vissulega er óvanalegur sem betur fer en fyrir tillöguflutningnum eru ærin tilefni og alvarleg.
    Það var í janúar 1994 sem hæstv. umhvrh. tilkynnti um þá ákvörðun sína að flytja embætti veiðistjóra frá Reykjavík til Akureyrar. Þessi ákvörðun var tekin fyrirvaralaust og án nokkurs minnsta samráðs við starfsmenn veiðistjóraembættisins sem fengu fyrst vitneskju um ákvörðun ráðherra eftir að hún var tekin.
    Það er einnig ástæða til þess að ætla að þessi ákvörðun geti átt rætur í persónulegum árekstri ráðherra við starfsmenn embættisins á óskyldum vettvangi. Upplýsingar sem styðja þetta komu fram af hálfu starfsmanna embættisins í umhvn. Alþingis á 117. löggjafarþingi.
    Þar sem hér er um mjög alvarleg málsatvik að ræða sem hugsanlega varða við lög og alþjóðlegar skuldbindingar er að mati flm. þessarar tillögu eðlilegt að sérstök rannsóknarnefnd kanni málavexti. Athugun nefndarinnar er fyrst og fremst ætlað að beinast að samskiptum ráðherrans við umrædda starfsmenn í tengslum við ákvörðun hans um flutning veiðistjóraembættisins en varðar ekki flutning embættisins sem slíks til Akureyrar. Það er nauðsynlegt að undirstrika þetta vegna þess að að því hefur verið látið liggja af þeim sem halda uppi málsbótum fyrir hæstv. ráðherra og embættisfærslur hans að hér sé verið að beina spjótum að þeirri ákvörðun að flytja embætti frá höfuðstaðnum út á land. Það er algjörlega óskylt mál sem við flm. blöndum á engan hátt inn í þetta heldur beinist þetta einvörðungu að samskiptunum við starfsmennina.
    Það eru ýmis álitamál sem tengjast málatilbúnaði ráðuneytisins að því leyti eru þau annars eðlis og ekki tilefni flutnings þessarar tillögu. Þar er sérstaklega átt við þennan flutning embættisins sem slíks.
    Í tillögunni eru málavextir raktir í aðalatriðum eins og þeir virðast liggja fyrir að mati flm. en jafnframt vísað til umsagna sem birtar eru í fylgiskjölum með tillögunni og bárust umhverfisnefnd við meðferð frumvarps til laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, öðrum en hvölum. Í umræðum um frumvarpið fléttuðust af hálfu starfsmanna veiðistjóra, af eðlilegum ástæðum, saman við málið atriði er varða meint fagleg áhrif flutnings embættisins og áhrif þeirrar aðgerðar á starfsmenn en það er óskylt þeirri rannsókn sem hér er ætlað að fari fram á grundvelli þessarar tillögu.
    Í grg. með tillögunni og fylgiskjölum er sýnt fram á það með ljósum rökum að hæstv. ráðherra hafði við málatilbúnað sinn ekki fyrir því að kynna starfsmönnum þessa embættis ákvörðun sína áður en hún var tekin, hvað þá að leita eftir áliti þeirra fyrir fram að því er snertir þá ákvörðun hans og í rauninni undirbjó hann ekki ákvörðun sína með þeim hætti sem eðlilegt hlýtur að teljast þegar um svo ákvarðandi mál er að ræða. En þar sem tillagan varðar einvörðungu framkomuna gagnvart starfsmönnum veiðistjóraembættisins þá ætla ég ekki að rekja það sem varðar hinn faglega þátt málsins þó að mjög margt mætti um það segja út af fyrir sig.
    Í fskj. með tillögunni er að finna álit frá laganefnd Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna og þar er að finna ábendingar sem varða hugsanleg brot á eðlilegum reglum og hugsanlega á lögum sem sniðgengin eru af hálfu hæstv. ráðherra við hans málafylgju.
    Flm. hafa að sjálfsögðu ekki tekið neina afstöðu til þess hvort um lögbrot er að ræða í sambandi við málið því það væri ekki ástæða til þess af hálfu okkar að leggja til skipan rannsóknarnefndar ef það teldist borðleggjandi og fullljóst heldur er einmitt nauðsynlegt að rannsóknarnefnd, sem hér er gert ráð fyrir að verði skipuð, fari yfir þau efni og leiði fram og gefi Alþingi skýrslu um það hvort um slík lögbrot

hefur verið að ræða.
    Að mínu mati eru það sérstaklega stjórnsýslulögin sem hljóta að koma til álita í sambandi við þetta mál að því er snertir hina formlegu lagahlið. Stjórnsýslulög nr. 37/1993 en í 10. gr. þeirra er að finna hina svonefndu rannsóknareglu sem er þannig, með leyfi forseta:
    ,,Stjórnvald skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.``
    Í 13. gr. stjórnsýslulaga sem er svohljóðandi, undir fyrirsögninni ,,Andmælaréttur``, með leyfi forseta:
    ,,Aðili máls skal eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft.``
    Ábendingar hafa komið fram um að gengið sé á svig við lagafyrirmæli í fleiri greinum, m.a. í nefndu áliti laganefndar BHMR. En ég ætla hér ekki að fara út í þau efni sérstaklega, það eru mál sem rannsóknarnefnd yrði að fjalla um og kveða þar til sérfróða aðila til þess að meta þá þætti.
    Ég vil hins vegar, virðulegur forseti, víkja að því atriði sem gerð er grein fyrir af okkur flm. í grg. að um valdníðslu hafi verið að ræða af hálfu hæstv. ráðherra í sambandi við þetta mál, auk þess sem brotið er gegn óskrifuðum lögum um mannleg samskipti.
    Nú er það svo að hugtakið valdníðsla er ekki mjög skýrt afmarkað í íslenskri löggjöf eða íslenskum rétti en hins vegar hefur verið um það fjallað af lögfróðum aðilum, löglærðum aðilum, og ég vil vísa til þess, virðulegur forseti, hvar slíkar upplýsingar er að finna. Ástráður Haraldsson héraðsdómslögmaður hefur ritað langa grein um forsendur stjórnsýsluathafna og þar er að finna í tímaritinu Úlfljóti á bls. 135 skýringar á valdníðsluhugtakinu og hvernig beri að túlka það og einnig á bls. 139. Ég hef ekki tíma í minni framsögu að víkja að efni þessa en ég vil jafnframt vísa til greinar eftir annan virtan lögmann sem er Eiríkur Tómasson héraðsdómslögmaður, sem skrifaði greinina ,,Á vettvangi dómsmála`` fyrir nokkrum árum síðan og fjallar þar um þessi efni á bls. 63, hugtakið valdníðslu, þ.e. varðandi ólögmætar ástæður sem búa að baki stjórnvaldsákvörðun og nefnd hefur verið valdníðsla í íslenskum stjórnarfarsrétti. Þetta er að finna á bls. 62 og 63 í nefndri grein eftir þennan virta lögmann.
    Ég tel alveg nauðsynlegt að yfir þessi efni sé farið alveg sérstaklega út frá hlutlægum ástæðum sem liggja að baki þessa máls en einnig hljóta menn að horfa á hina huglægu þætti að svo miklu leyti sem réttmætt kann að vera að tengja það málafylgju ráðherrans en hér skal ekkert fullyrt um það hvort slíkar ástæður hafi legið að baki þó að ýmsar vísbendingar hafi komið fram af hálfu málsþolenda þar að lútandi.
    Þá vil ég nefna það, virðulegur forseti, að í málafylgju sinni hefur hæstv. umhvrh. gengið gegn þeim leiðbeiningum sem mörkuð eru í nál. stjórnskipaðrar nefndar núv. ríkisstjórnar sem var undir forsæti Þorvalds Garðars Kristjánssonar sem skilaði áliti til forsrn. og gefið er út í júlí 1993. Í grg. er vitnað til þess með svofelldum hætti, með leyfi forseta:
    ,,Með flutningi stofnana er ætlunin að færa atvinnutækifæri til landsbyggðar. Það má gerast hvort sem starfsmenn fylgja með stofnun sinni eða ekki. Hins vegar varðar miklu að stofnun geti haldist á starfsmönnum sínum. Þar er um gagnkvæma hagsmuni að ræða. Verður að leita allra ráða til þess að stofnun haldist á starfsmönnum sínum.``
    Þetta segir orðrétt í áliti þessarar nefndar. Gegn þessu er auðvitað brotið gróflega. Það er líka ástæða til að vekja athygli á því að í umfjöllun á vegum hæstv. ríkisstjórnar var umrætt embætti ekki á dagskrá á vegum þessarar nefndar þar sem áttu sæti fulltrúar allra þingflokka og á sérstökum fundi sem hæstv. umhvrh. kvaddi saman með fulltrúum stofnana undir sínu ráðuneyti í nóvember 1993 var ekkert að því látið liggja að hugmynd væri uppi um það að flytja stofnun sem ákvörðun er svo tekin um að flutt verði af hæstv. ráðherra nokkrum mánuðum seinna, 1994 í ársbyrjun. Voru þó forstöðumenn umrædds embættis á nefndum fundi.
    Það er ástæða til þess við skoðun málsins, virðulegur forseti, að líta til þess hvernig haldið er á hliðstæðum málum í nágrannalöndum. Ég hef undir höndum greinargerðir og málsskjöl frá Noregi sem draga fram hvernig haldið er á málum í flutningi stofnana þar í landi. Þar er um að ræða flutning á Norðurstofnun Norðmanna frá Ósló til Tromsö og þar er fjallað um málið og gerð grein fyrir því með hvaða hætti þetta skuli gert og um samning við starfsmenn um flutning stofnunar, ákvörðun sem tekin er 1993 en flutningurinn á að vera um garð genginn 1998. Þar er um að ræða eðlileg og vönduð vinnubrögð en ekki það handahóf og þau fráleitu málstök sem hæstv. umhvrh. því miður viðhafði þegar hann tók ákvörðun um það án nokkurs minnsta samráðs eða viðvörunar gagnvart stofnunum viðkomandi embættis að flytja það.
    Ég er eindreginn stuðningsmaður þess að reynt sé að dreifa stjórnsýsluverkefnum á Íslandi með því að koma þeim fyrir annars staðar en hér í höfuðborginni. En ég tel að vinnubrögð af þessum toga gangi þvert gegn slíkum markmiðum og séu til þess fallin að skapa pólitíska óvild og mótþróa gegn slíku umfram það sem eðlilegt er og að vinnubrögð hæstv. ráðherra séu einnig af þeim sökum afskaplega óheppileg, svo ekki sé fastar að orði kveðið.