Embættisfærsla umhverfisráðherra

87. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 17:09:37 (3960)


[17:09]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Ég tel að forsetadæmið hafi tekið hárrétta ákvörðun með þessu leyfi. Ég tel líka nauðsynlegt að þetta fordæmi sé veitt og það sé sköpuð hefð að þegar tillögur eins og þessi koma fram þar sem ráðherra er borinn þungum sökum þá fái hann a.m.k. undir öllum kringumstæðum jafnmikinn tíma og flutningsmaður. Að vísu hefur það komið fram að það sé óvanalegt og ég vænti þess að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sjái að sér og flytji ekki svona vitleysistillögur aftur. Það getur alltaf komið til þess og þá er það bara nauðsynlegt að sá sem verður fyrir því hvert skipti fái jafnmikinn tíma og hv. þm. til að skýra sitt mál jafnvel þótt hann noti tímann illa eins og hv. þm. telur að ráðherrann hafi í þessu tilfelli gert.