Embættisfærsla umhverfisráðherra

87. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 17:15:33 (3963)


[17:15]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Hér er á ferðinni tillaga sem virðist skapa ansi mikinn óróa og það er greinilegt að hæstv. umhvrh. er ekki beint rótt þegar hann ræðir um þessa tillögu og les ýmislegt annað út úr henni en ætlunin er af hálfu flutningsmanna.
    Ég er einn flutningsmanna og vil upplýsa það að Kristín Ástgeirsdóttir, þingkona Kvennalistans, er líka einn flutningsmanna en hún situr ekki á þinginu núna sem er skýringin á því að hún situr ekki hér en varamaður hennar er nú í salnum. Þetta vildi ég upplýsa vegna þess að verið var að tala um að fólk þyrði ekki að sitja í salnum. Mér þykir það nú hlægilegt.
    Þessi tillaga er mjög skýr. Það stendur mjög ákveðið í henni að farið sé fram á að kosin skuli nefnd til að kanna embættisfærslu umhvrh. gagnvart starfsmönnum embættis veiðistjóra. Það er ekki verið að tala um að hæstv. ráðherra hafi ekki haft lagaheimild til að flytja stofnunina til Akureyrar. ( Umhvrh.: Það er ýjað að því.) Ég veit ekki hvernig hæstv. ráðherra eða aðrir vilja endilega lesa það út úr þessari tillögu. Ég hef margoft lýst yfir því að ég efast ekki um að hann hafi lagalega heimild til þess en hins vegar er hægt að efast um að það sé eðlilega að málinu staðið, það er allt annað mál. Ég get upplýst það hér og nú þar sem ég var spurð sérstaklega að því að raunverulegur tilgangur þessarar tillögu er ekki að lýsa vantrausti á umhvrh. En ef hann vill taka það svo þá verður hann að hafa það fyrir sig. Tilgangur tillögunnar er fyrst og fremst að kanna hvernig að þessum málum hefur verið staðið að því er varðar starfsmenn. Það er ekki að ástæðulausu að þetta er gert. Þegar þessar tillögur komu fyrst á borð t.d. umhvn. Alþingis, þegar við vorum að ræða mál sem voru þessu alls óskylt, við vorum að ræða mál um vernd og veiðar á viltum dýrum sem var samþykkt á síðasta þingi, mál sem umhvn. vann að lengi síðasta þings, þá kom þetta mál á borð okkar. Ég verð að viðurkenna að lýsingin sem við fengum þar á því hvernig ráðuneytið, þá væntanlega undir stjórn hæstv. umhvrh., hefði komið fram við starfsmenn var ekki falleg. Hér hefur hæstv. ráðherra upplýst að búið sé að leysa þessi starfsmannamál, það má vel vera. En það breytir ekki því að sú framkoma sem ráðuneytið viðhafði gagnvart starfsmönnunum var óralangt frá því að vera eðlileg. Þetta hljóta allir að geta séð. Ég vil þess vegna ítreka að ég tel að hvorki felist í þessari tillögu

né að ég sjálf hafi nokkrar efasemdir um það að ráðherrann hafi þessa heimild. Ég vil hins vegar að farið sé ofan í þessi mál og það sé ljóst, og þá er ég fyrst og fremst að hugsa um starfsmenn stofnana, að það sé ljóst hvar þeir standa þegar slíkar ákvarðanir eru teknar. Það er ekki víst að alltaf sé hægt að stofna embætti við Háskóla Íslands ef einhverjar stofnanir eru lagðar niður eins og verið er að gera núna. Ég vil auðvitað leggja áherslu á það að ég lít á það sem mjög jákvætt að það rannsóknir séu efldar við Háskóla Íslands á villtum spendýrum en ég bendi á eins og fram kom í umræðum um frv. til fjárlaga að það á að greiða þetta af fjárlagalið embættis veiðistjóra, alla vega að hluta til. Ég veit ekki hvernig það gengur upp. Þannig að það er nú ýmislegt sem vert er að athuga í því máli. Það kemur hins vegar ekki þessu máli við.
    Mig grunar jafnvel að það upphlaup sem hefur orðið varðandi þetta mál hafi orðið til að leysa starfsmannamál þessarar stofnunar sem betur fer. En fleiri stofnanir er lagt til að flytji út á land, sem t.d. er lagt til í tillögum nefndar forsrn. Fulltrúi Kvennalistans tók þátt í starfi þessarar nefndar og við vorum sáttar við þá niðurstöðu sem var tekin. Hún er hins vegar ekki í samræmi við það sem hæstv. ráðherra hefur ákveðið. Af því að hér voru nefndar Landmælingar ríkisins sem hv. 4. þm. Vesturl., Gísli S. Einarsson, talaði um þá er ekki talað um að þær eigi að flytja til Akraness heldur til Selfoss. Ég vil bara vekja athygli á þessu, ekki það að ég sjálf hafi farið svo ofan í það hvar þær ættu helst heima. En ég vil benda á að mér finnst eðlilegt þegar verið er að skipa nefndir á vegum ríkisstjórnarinnar og þingflokkar taka þátt í þeim nefndarstörfum sé ekki gengi þvert gegn því og það séu eingöngu persónulegar skoðanir einstakra ráðherra sem skipti máli. En það skiptir aðalmáli þegar verið er að flytja ríkisstofnanir að réttur starfsmanna sé tryggður, það er aðalatriðið.
    Í þessu nál. um flutning ríkisstofnana er talað um að það verði að vanda vel flutninginn. Ég vil benda á eina ríkisstofnun sem hefur flust núna ekki alls fyrir löngu. Það var Skógrækt ríkisins sem flutti til Egilsstaða. Það tókst mjög vel til held ég um flutning þeirrar stofnunar enda vandað til þess. Það var undirbúið vel og lagði skógræktarstjóri einmitt mjög mikla áherslu á það þegar haft var samband við hann að það yrði að undirbúa slíkan flutning mjög vel og ekki síst með tilliti til starfsmanna. Það er það sem skiptir máli.
    Mér finnst mjög sérkennilegt að menn fari að lesa á milli línanna að þeir sem flytji þessa tillögu séu á móti flutningi ríkisstofnana, það finnst mér alveg af og frá, og þarf ekki annað en vitna til álits frá nefnd á vegum forsrn. til þess að hrekja þetta. Mér þykir ákaflega einkennilegt ef menn halda t.d. að Jón Helgason sé á móti flutningi ríkisstofnana út á land. Mér finnst það vera svo mikil hártogun og vitleysa. Ef slíkur málflutningur á að vera um tillögu sem þessa er það alls ekki til þess að flýta fyrir eða auðvelda flutning ríkisstofnana út á land.
    Ég tek einnig fram af því að hv. þm. Árni M. Mathiesen segir að hann gruni að tillöguflutningurinn sé vegna persónulegra árekstra við ráðherrann að mér finnst þetta alveg af og frá. Hver hefur rekist svona persónulega á ráðherrann? Ekki ég. Ef hann þykist lesa það á milli línanna held ég að hann ætti að fara í lestrarkennslu til að sjá að þetta passar ekki með nokkru móti og ég vísa slíkum málflutningi á bug.