Embættisfærsla umhverfisráðherra

87. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 17:49:41 (3970)


[17:49]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt að ég svari þessari spurningu strax. Ég er ekki tilbúinn til þess. Mig langar hins vegar, virðulegi forseti, vegna þess að þetta mál hefur dregist hér inn að lesa upp úr greinargerð sem ég hef í höndum. Ég vil hins vegar taka það fram að ég er hér til þess að ræða þessa þáltill. en ég ætla ekki að fara að ræða málefni Skipulags ríkisins eða Landmælinga Íslands.
    Þegar ég óskaði eftir því við Eirík Tómasson hæstaréttarlögmann að hann gæfi mér greinargerð um efni þáltill. og sér í lagi hinn fræðilega hluta hennar, sem í raun var álit laganefndar BHMR, gerði hann það og jafnframt þegar hann afhenti mér það gat hann þess að hann réði mér frá því að hrinda í framkvæmd ákvörðun um Landmælingar Íslands sem þá voru á lokastigi. Ég óskaði eftir því að hann léti mig fá röksemdafærslu sína skriflega, og les úr henni, með leyfi forseta:
    ,,Ákvæði 39. gr. stjórnarskrárinnar er svohljóðandi:
    ,,Alþingi getur skipað nefndir alþingismanna til að rannsaka mikilvæg mál er almenning varða. Alþingi getur veitt nefndum þessum rétt til að heimta skýrslur, munnlegar og bréflegar, bæði af embættismönnum og einstökum mönnum.`` Svo sem fram kemur í riti Ólafs Jóhannessonar, Stjórnskipun Íslands, hafa rannsóknarnefndir af hálfu Alþingis verð fátíðar og þær litlu skipt um stjórnarháttu hér á landi. Á síðustu áratugum hefur engin slík rannsóknarnefnd verið sett á stofn svo að mér sé kunnugt um, heldur hafa þingnefndir, fyrst og fremst fastanefndir þingsins, kannað öll þau mál sem þingmenn hafa séð ástæðu til að láta athuga sérstaklega.
    Í Danmörku hafa stöku sinnum verið settar á stofn rannsóknarnefndir á grundvelli samsvarandi ákvæðis í dönsku stjórnarskránni en frá lokum síðari heimsstyrjaldar hafa þær einvörðungu verið kosnar í því skyni að sanna hvort ástæða væri til að stefna ráðherrum fyrir landsdóm vegna embættisreksturs þeirra.

Með hliðsjón af þessu felst að mínum dómi mjög alvarleg ásökun í garð ráðherra þegar flutt er tillaga til þingsályktunar um skipun rannsóknarnefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar. Ef ráðherra léti þvílíkan tillöguflutning sem vind um eyru þjóta og hrinti í framkvæmd ákvörðunum sem lýstar væru senn ámælisverðar og ólögmætir af flutningsmönnum slíkrar tillögu kynni það að baka honum ábyrgð skv. lögum nr. 4/1973, um ráðherraábyrgð, sbr. einkum 2. gr. þeirra laga. Af þessum sökum tel ég það bæði í samræmi við þingræðisregluna og góða stjórnsýsluhætti að þér sem umhvrh. frestuðuð að hrinda í framkvæmd því áformi yðar að flytja aðsetur Landmælinga ríkisins frá Reykjavík til Akraness uns umrædd þáltil. hefði verið tekin til meðferðar og atkvæði greidd um hana á Alþingi.
    Virðingarfyllst, Eiríkur Tómasson hrl.``
    Ég tel rétt að þetta komi hér fram þó að það eigi ekki beinlínis erindi inn í þessa umræðu.