Embættisfærsla umhverfisráðherra

87. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 17:52:27 (3971)


[17:52]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Þessi umræða hefur sannfært mig um það að svona tillögu á ekki að fella á hv. Alþingi. Ég var í miklum vafa um það fyrir þessa umræðu en ég tel að tillaga eins og þessi sem er rökstudd með þeim hætti, sem hér hefur komið fram, hljóti að verða tekin til umfjöllunar og það verði Alþingi til vansa ef hún verður ekki samþykkt. Ég er hræddur um að það verði verst fyrir hæstv. ráðherra ef tillagan verður ekki samþykkt einfaldlega vegna þess að með því að fella slíka tillögu eru menn nánast að segja að það megi ekki skoða málið. Ég tel að full ástæða sé til þess að skoða málið. Ég ætla ekki að fella neinn dóm um það hver sú niðurstaða verður. Mér finnst menn hafa drepið málinu hér á dreif með því að velta mönnum upp úr því að þeir hafi misjafnar hvatir á bak við þessa tillögu og séu jafnvel á móti því að flytja stofnanir út á land, sem ég sé út af fyrir sig enga ástæðu til þess að halda fram í þessu sambandi.
    Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra: Leggur hann til að þessi tillaga verði felld? Ég held að það verði mjög fróðlegt að hann svari því því ég tel að það mundi veikja hæstv. ráðherra mjög ef þessi tillaga yrði felld hér og ekki benda til annars en þess að hér væri meiri hluti fyrir því að ekki mætti skoða þetta mál. Ég tel það mjög alvarlegt mál þegar slík tillaga sem þessi er borin fram og það þurfi fyrir henni mjög góðan rökstuðning. Rökstuðningurinn hefur komið hér fram og kannski er sá rökstuðningur sem hæstv. ráðherra bar fram sjálfur sá öflugasti. Hann sagði nefnilega frá því að það þurfti að stofna sérstakt embætti, sem ekki var fyrirhugað áður en í þessa vegferð var farið, til þess að sætta menn við niðurstöðuna. Það þurfti að skapa öllum aðilum sem höfðu vinnu hjá þessu embætti ný störf og stofna sérstakt embætti sem er borgað frá veiðistjóra að hluta til þess að það væri hægt að koma þessum málum í þannig horf að menn sættu sig við niðurstöðuna. Mér finnst það út af fyrir sig vera mjög skýr vísbending um að hlutirnir hafi alls ekki verið í lagi.
    Ég held að það sé bara hárrétt að þessi tillaga komi til atkvæða og hún verði samþykkt, hæstv. forseti. Ég tel að hæstv. ráðherra hafi með því að segja að það hafi verið kastað til höndunum við þessa tillögugerð, verið að dæma sjálfan sig. Hæstv. ráðherra hefur að mínu viti, en það mun rannsóknin síðan leiða í ljós, líklega kastað til höndunum í samskiptum við starfsmenn veiðistjóraembættisins og það er miður. Ég fyrir mitt leyti segi það að mér finnst líka fáránlegt að vera að ræða um einhverja flutninga á einhverri annarri stofnun í þessu sambandi. Hæstv. ráðherra las upp úr skjali frá lögmanni um að það væri varasamt að standa í flutningi á öðru embætti meðan þessi tillaga væri óafgreidd, en lýsti því jafnframt yfir í þeirri sömu ræðu að þó að þessi tillaga yrði felld þá mundi hann ekki leggja til að þetta embætti yrði flutt til Akraness. Þannig að hann hefur í sjálfu sér rökstutt sjálfan sig eða vísað út í hafsauga sínum eigin dylgjum um það að þetta ylli því að ekki mætti taka ákvörðun um að flytja viðkomandi stofnun upp á Akranes. Fyrir utan að ég tel að hæstv. ráðherra hljóti, ef hann hefur fulla sannfæringu fyrir því að hann hafi farið fram með eðlilegum hætti, þá hefði hann aldrei átt að láta sér detta í hug að hætta við flutninginn á þessu embætti, þessari ríkisstofnun upp á Akranes. Hafi hann verið sannfærður um að hann væri í góðum málum, eins og í dag er svo oft sagt, gagnvart flutningi veiðistjóraembættisins norður, þá átti hann ekki að vera að hlusta á eitthvað sem hann taldi vera tóma vitleysu, eins og menn hafa tekið dálítið djarflega til orða hér um þessa tillögu.
    En ég endurtek, hæstv. forseti, að umræðan hefur sannfært mig um að það þarf að láta þessa rannsókn fara fram til þess að öll kurl komi til grafar og til að hv. Alþingi fái skýra niðurstöðu í þetta mál.