Menntun á sviði sjávarútvegs og matvælaiðnaðar

87. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 18:19:10 (3976)


[18:19]
     Guðný Guðbjörnsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu ágætis tillaga um eflingu menntunar á sviði sjávarútvegs og matvælaiðnaðar í framhaldsskólum landsins, sem ég vil þakka flm. fyrir. Það sem er hins vegar furðulegt við hana er að flm. eru allir sjálfstæðismenn og ættu því að hafa haft góðan aðgang bæði að ráðherra menntamála og sjávarútvegsmála á þessu kjörtímabili. Þessi tillaga náði hins vegar ekki fram að ganga á síðasta þingi og er nú komin fram rétt fyrir þingslit og kosningar. Hvers vegna? Jú, það er ágætt að setja fram tillögur um gott og kostnaðarsamt verknám, en það er annað að hafa manndóm í sér til þess að fjármagna menntatillögur af þessu tagi eða menntamálum yfirleitt.
    Þessi tillaga verður því að skoðast sem sýndarmennskan ein, en vonandi koma þeir tímar, jafnvel á næsta kjörtímabili, að menntamál, þar á meðal starfsmenntun, ekki síst á sviði sjávarútvegs og matvælaiðnaðar, verði forgangsmál. Löngu er orðið tímabært að leggja meira fé ekki bara til starfsmenntunar á framhaldsskólastigi heldur líka til grunnskólans og til háskólastigsins og ekki síst þar Háskóla Íslands.