Vegasamband milli Austurlands og Norðurlands

87. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 18:40:37 (3980)

[18:40]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. 4. þm. Austurl. að hreyfa þessu máli. Það er að mínu mati nauðsynlegt að þetta sé í umræðunni og verði komist að niðurstöðu fyrr en seinna varðandi samgöngumál og hvernig best er hagað tengingu Austur- og Norðurlands.
    Ég vil byrja á að nefna að í raun hafa vegamál og vegir sem tengja saman þessa landshluta dregist aftur úr sem áratugum skiptir varðandi uppbyggingu og viðhald. Vegurinn yfir Fjöllin og raunar með ströndinni að verulegu leyti er í sama horfi og við þekktum og urðum að búa við víða annars staðar fyrir 20--30 árum. Ég hef stundum nefnt það í þessu samhengi að þegar ég sem unglingur var í framhaldsskólanum á Laugum 1965--1968 voru nokkuð snjóþungir vetur. Þá þótti ekki tiltökumál þó að vikum saman væri lokað vegna snjóa milli Húsavíkur og sveitanna í Þingeyjarsýslum og Akureyrar. Á þeim árum lenti ég í því bæði að fara þar á milli sjóleið með skipi einhvern tíma, með gömlu Esjunni, og tala nú ekki um þau skipti þegar ýmist var brotist með snjóbílum eða jeppum. Nú er svo komið á þessari leið að þar er búið að tryggja nánast daglegar samgöngur allt árið. En til skamms tíma voru samgöngur milli þessara landshluta með þessum sama hætti. Svona aðeins til að varpa ljósi á nauðsyn þess að gera þarna bragarbót.
    Í öðru lagi vil ég nefna að nú er svo komið að mjög mikill meiri hluti bíleigenda veigrar sér orðið við að fara með bíla sína út af slitlagi. Það gerir það að verkum að gagnvart til að mynda ferðamennskunni hefur hringvegurinn ekki sama aðdráttarafl og áður. Og í rauninni kemur þetta mjög illa við allt norðausturhornið. Þess vegna vil ég varpa þeirri spurningu til frummælanda því að það leyndi sér ekkert að hugur hans stóð með strandleiðinni, hvernig hann vildi ganga frá veginum yfir Fjöllin sem ég held að gegni afar miklu og mun gegna afar veigamiklu hlutverki gagnvart samgöngum, ekki síst með tilliti til ferðamanna. Er það þá meining flutningsmanns að sá vegur verði skilinn eftir eitthvað í viðhlítandi formi og hann er núna eða er það meining flutningsmanna að þar verði komið á bundnu slitlagi? Ef svo er þá finnst mér þetta kannski vera svolítið deila um keisarans skegg. Er það ekki sú leið sem við höfum til þess að bæta samgöngur milli þessara landshluta að byggja þessa leið upp áfram á hliðstæðum hætti og byrjað er núna vestur frá og koma á hann bundnu slitlagi?
    Ég hef í sjálfu sér ekki gert neina sjálfstæða úttekt á því hvernig gengi að halda veginum opnum yfir vetrartímann. En það kemur mér hins vegar á óvart bara núna á þessum vetri hversu oft heyrist að leiðin um Möðrudalsöræfi sé fær sem segir mér að það sé, og kemur mér ekkert á óvart, kannski ekki svo óskaplega mikið mál að halda þessum vegi færum yfir veturinn. Það á það ekki að þurfa að koma neinum á óvart því vegurinn er í úrkomuskugganum norðan Vatnajökuls þannig að úrkoma þarna er frekar lítil.
    Það er rétt sem hv. þm. segir að væri farið með veginn algjörlega með ströndinni niður undir sjávarmál, það þekki ég af reynslu, ég hef verið á ferðinni um Norður-Þingeyjarsýslu að vetrarlagi frá 1987 meira og minna alla vetur, að til að mynda með veginn um Sléttu setur aldrei neinn snjó á, það er alveg hárrétt. Það eru í rauninni tveir, þrír staðir þar sem er hætta á að myndist skaflar en að öðru leyti er hann venjulega nánast auður.
    Ég held hins vegar, án þess að hafa fyrir mér kannanir á því, að ef farið er upp á Öxarfjarðarheiði, hvað þá Reykjaheiði, þá eru menn komnir í þá stöðu að njóta ekki lengur vegarstæðisins við sjóinn og snjóleysisins þar og ekki heldur úrkomuskuggans frá Vatnajökli og þar séu menn í raun að fara með vegina upp á þau vegarstæði sem yrðu snjóþyngst hvað þetta snertir. Mér finnst nú á heimamönnum í Kelduhverfi að þeir nánast útiloki Reykjaheiðarleiðina. Öxarfjarðarheiðin kemur örugglega.
    Það er annað sem ég vil nefna í þessu sambandi sem hv. þm. rakti og taldi að leiðin sem hann nefndi, Akureyri um Reykjaheiði og Öxarfjarðarheiði, Vopnafjörð og jarðgöng undir Hellisheiði, væri strandleiðin sem tengdi byggðirnar saman. En hvað kemur í ljós þegar við lítum á kortið? Húsavík, Kópasker, Raufarhöfn, allir þessir kjarnar eru þá komnir úr alfaraleið. Við erum þá kannski ekki lengur að tala um tvær leiðir sem þarf að viðhalda heldur þrjár. Því að ég hygg nú að flm. telji að við verðum að halda leiðinni yfir Fjöllin. Síðan væru það heiðarnar og til viðbótar mundu væntanlega og skiljanlega íbúar úti á Sléttu, Kópaskeri og nágrenni við Raufarhöfn, gera kröfu til þess að til þeirra væri haldið uppi eðlilega góðu vegasambandi og þá væntanlega með bundnu slitlagi.
    Í mínum huga eru þarna mörg álitamálin varðandi þá tillögu sem hv. þm. virðist hallast helst að. Ég hef ekkert verið feiminn við að opinbera þá skoðun mína að sú leið sem við eigum að fara núna og klára til þess að bæta og stórbæta samgöngurnar milli Austur- og Norðurlands er yfir Fjöllin. Því að staðreyndin er sú að það eru ekki nema 270 km sem skilja að miðhéraðið, Egilsstaði og Akureyri, og náttúrlega þeim mun styttra þegar við förum að tala um til að mynda byggðir í Þingeyjarsýslum. Á sæmilega góðum vegi þá er þetta ekki nokkur skapaður hlutur. Þetta er eins og að keyra frá Akureyri og suður í Bifröst. Meira að segja í gærkvöldi þá keyrði ég hingað suður í éljagangi og skafrenningi alla leið og var þó ekki nema sex tíma frá Akureyri og hingað með eðlilegu stoppi sem eru þó 430--450 km.
    Við sjáum að þarna mundu skapast mjög breyttar aðstæður og það heyri ég á til að mynda þjónustuaðilum á Akureyri að eftir að opnunin austur var bætt þá hafa íbúar á Austurlandi sótt í mjög auknum mæli til Akureyrar.
    Virðulegur forseti. Það var vonum seinna að forseti barði í bjölluna því rauða ljósið var vissulega búið að tifa svolitla stund en ég hef ekki meira til málanna að leggja á þessu stigi.