Ræðutími í umræðu um þingsályktunartillögu um embættisfærslu umhverfisráðherra

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 13:44:38 (3993)


[13:44]
     Kristín Einarsdóttir (um fundarstjórn) :

    Frú forseti. Ég var sú sem vakti athygli á þessu í gær og vil ég lýsa því hér að ég er algjörlega sammála þeim úrskurði sem forseti las hér úr ræðustóli. Ég get tekið undir bæði það sem kemur fram í hennar úrskurði og það sem kom fram í máli hv. 14. þm. Reykv. að það gat verið sanngirni í því að leyfa ráðherra að tala lengur en við verðum auðvitað að fara að settum reglum. Það er það sem skiptir höfuðmáli. Þess vegna vil ég lýsa því yfir að ég er sammála úrskurði forseta að þetta hafi ekki neitt fordæmisgildi og að það þurfi auðvitað að fara að settum reglum.
    Það getur hins vegar verið alveg rétt, og ég get tekið undir það, að það getur þurft að endurskoða ákvæði þingskapa hvað þetta varðar. En ég vara samt við því að sú endurskoðun feli það í sér að forseti hafi einn almenna heimild til að veita undanþágur frá þingsköpum heldur sé það þá í samráði við þingflokka eða þá að það sé eftir skýrum reglum þannig að ekki sé hægt að víkja frá ákvæðum þingskapa nema þá að það sé mjög greinilegt í hvaða tilvikum það eigi að gera.
    En eins og ég segi enn og aftur ég er sammála úrskurði forseta í þessu máli.