Embættisfærsla umhverfisráðherra

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 13:58:13 (3998)

[13:58]
     Jóhann Ársælsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Hæstv. forseti. Mér finnst yfirlýsing hæstv. forsrh. mikil tíðindi. Ég held að það hljóti að vera einsdæmi að hæstv. forsrh. á einhverjum tíma hafi beitt sér með þessum hætti í þinginu. Það hlýtur að liggja mikið við. Hvað er það sem liggur við? Það er verið að óska eftir því að könnuð verði embættisfærsla ráðherra vegna samskipta við starfsmenn veiðistjóraembættisins. Það liggur fyrir að það er búið að grípa til örþrifaráða til að lægja öldur út af þessari embættisfærslu. Það er búið að stofna nýtt embætti við Háskóla Íslands í þeim tilgangi að lægja þessar öldur. Er ekki ástæða til að skoða þetta mál? Er þetta mál svona stórhættulegt að það megi ekki fara til nefndar og það megi ekki fjalla um það með eðlilegum hætti? Er það virkilega þannig að menn óttist að niðurstaða nefndarinnar verði sú að leggja til að þetta verði samþykkt, að nefndin sem fái þetta til sín leggi til að tillagan verði samþykkt um skipun rannsóknarnefndar? Það getur varla verið annað en það sem menn óttast. Ef menn telja að nefndin leggi til að fella tillöguna þá ættu menn ekki að óttast um niðurstöðuna hér í atkvæðagreiðslu í hv. Alþingi. Það hlýtur að vera eitthvað annað.
    Ég segi alveg eins og er að mér finnst þetta fráleitt og ég tel að það verði Alþingi til mikls vansa ef það má ekki láta hreinsa þann hæstv. ráðherra sem tillagan fjallar um af þeim ásökunum sem í henni felast. Og það verði ekki hægt að leggja það út á annan veg en þann að menn treysti því ekki að sú rannsókn hreinsi ráðherrann af málinu og það sé þess vegna sem eigi að fella þessa tillögu, að hún fari til eðlilegrar meðferðar í þinginu. Ég mótmæli þessu, hæstv. forseti.