Embættisfærsla umhverfisráðherra

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 14:01:06 (4000)


[14:01]
     Kristín Einarsdóttir (um atkvæðagreiðslu) :
    Frú forseti. Ef satt er að menn ætli að koma í veg fyrir það að tillaga fái efnislega umfjöllun, ef

það er rétt þá þykir mér það mjög alvarlegt. Mér finnst það mjög alvarlegt mál að meiri hluti Alþingis ætli að koma í veg fyrir að vísa tillögum til nefnda ef farið er fram á það eða til síðari umræðu. Við verðum að athuga það að með því að greiða atkvæði um þessa tillögu hvort vísa eigi henni til síðari umr., þá er ekki verið að taka neina efnislega afstöðu til málsins. Ég er búin að greiða atkvæði fjórum sinnum hérna í dag um það hvort eitt frv. og þrjár þáltill. eigi að fara til 2. umr. og síðari umr. Ég var í því ekki að taka neina efnislega afstöðu til málsins. Í þau ár sem ég er búin að vera hér á þingi held ég að það hafi aldrei komið fyrir að ég hafi greitt atkvæði gegn því að mál farið milli umræðna. Og þá skiptir engu máli hversu illa mér er við málið eða hversu mikið ég er á móti því. Það eru mörg mál þess eðlis að ég hef greitt atkvæði gegn þeim. En að koma í veg fyrir eðlilega þinglega meðferð, það þykir mér mjög alvarlegt mál. Og það er það sem mér þykir alvarlegt og þá er það algerlega óháð því hvers eðlis málið er.
    Hér finnst mér menn vera að blanda því saman hvort í þessu felist vantraust á ráðherra eða ekki. Það hefur ekkert með málið að gera. Tillagan er jú um að athuga embættisfærslu umhvrh., en í dag erum við ekki að greiða atkvæði um það. Við erum ekki að greiða atkvæði um tillöguna. Mér þykir þetta svo alvarlegt mál ef þetta er það sem mun gerast hérna í dag, þetta er það alalvarlegasta sem ég hef heyrt um. Mér finnst þetta vera tilræði við þingræðið ef ekki er hægt að láta tillöguna ganga til síðari umr. og nefndar ef tillaga er um það. Við erum núna ekki að gera annað en það, eins og venja er, að tala um að tillagan gangi til síðari umr. Og það er enginn þingmaður hér, þó hann greiði atkvæði með því að tillagan fari til síðari umr., að taka efnislega afstöðu til málsins. Alls ekki. Ég tel heldur ekki að í því að vísa tillögunni til nefndar felist nokkur efnisafstaða. Ég lýsi því yfir hér og nú að mér þykir þetta eitt af því alvarlegasta sem ég hef nokkurn tíma orðið fyrir ef þetta verður niðurstaðan og ég trúi því ekki enn þá.