Embættisfærsla umhverfisráðherra

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 14:09:24 (4003)


[14:09]
     Sigbjörn Gunnarsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Örlítið fyrst vegna þess að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson spurði um fornvin sinn, hæstv. umhvrh., þá þurfti hann að fara af landi brott í embættiserindum nú um hádegisbilið og er því ekki hér í dag. ( ÓRG: Er umhvrh. samþykkur þessari málsmeðferð?) Ég hef orðið, hv. þm., er það ekki rétt skilið, forseti?
    ( Forseti (SalÞ) : Það er rétt.)
    Hv. þm. Kristín Einarsdóttir sagði áðan í ræðustól að flutningsmenn tillögunnar tækju ekki afstöðu heldur snerist málið um að vísa því til síðari umr. og óska eftir rannsókn sérstakrar nefndar á þessu máli. Ég vil hins vegar benda á að á bls. 3 í greinargerð flutningsmanna stendur, með leyfi forseta:
    ,,Flutningsmenn þessarar tillögu fá ekki betur séð en að umhvrh. hafi í málafylgju sinni gagnvart starfsmönnum veiðistjóraembættisins beitt mikilli valdníðslu auk þess að brjóta gegn óskrifuðum lögum um mannleg samskipti.``
    Ef þetta er ekki að taka afstöðu, þá veit ég ekki hvað er að taka afstöðu. ( Gripið fram í: Má ekki rannsaka það?) Jú, jú. Það má rannsaka allt mögulegt. ( Gripið fram í: Þið ætlið að banna rannsókn á málinu.)
    ( Forseti (SalÞ) : Ekki frammíköll.)
    Virðulegi forseti. Hins vegar er alveg ljóst og öllum ljóst og ekki síst 1. flm. þessarar tillögu að þessi tillaga er vantrauststillaga á hæstv. umhvrh., enda sagði hann það beinum orðum í sjónvarpsviðtali skömmu eftir að tillagan var lögð fram. Hann sagði að líta mætti á þessa tillögu sem vantrauststillögu. Það vita allir þeir sem vilja vita. Alþfl. getur ekki sætt sig við það og mun að sjálfsögðu ekki samþykkja vantraust á umhvrh. sem hefur beitt sér mjög farsællega í umhverfismálum á þessu kjörtímabili.