Embættisfærsla umhverfisráðherra

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 14:28:21 (4013)


[14:28]
     Matthías Bjarnason (um atkvæðagreiðslu) :

    Virðulegi forseti. Ég hafði ekki heyrt um það að það ætti að greiða atkvæði gegn því að vísa þessari tillögu til nefndar fyrr en frá þingmanni Alþb. sem hóf þessar umræður. Ég minnist þess ekki í þau 32 ár sem ég hef setið á Alþingi að ég hafi nokkru sinni greitt atkvæði gegn því að vísa máli til nefndar þó ég hafi verið mjög andvígur mörgum málum sem hafa fyrir nefnd komið.
    Ég tel það ekki vantraust á hæstv. umhvrh. Össur Skarphéðinsson að þessi tillaga fari til nefndar. Ég er öruggur um að það er sama til hvaða nefndar tillagan fer, þá muni meiri hluti þeirrar nefndar komast að þeirri niðurstöðu að Össur Skarphéðinsson hafi hvorki í þessu máli né öðru gerst brotlegur við það sem þessi tillaga í raun og veru fjallar um. Ég er sérstaklega andvígur ýmsu í greinargerð þessarar tillögu og ég get sagt það hér og nú að ég mundi greiða atkvæði gegn þessari tillögu ef hún kæmi hér til afgreiðslu. Ég ber fyllsta traust til Össurar Skarphéðinssonar umhvrh. og tel hann með bestu ráðherrum í núv. ríkisstjórn. ( Gripið fram í: Það er nú ekki mikið sagt.) Ég tel því að hér sé um mikinn misskilning að ræða og sérstaklega hjá síðasta ræðumanni, sem tók alveg rétta afstöðu hér í gær úr forsetastóli, að segja að það sé efnisleg ákvörðun að vísa máli til nefndar. Þetta er alrangt. Ég hef mörghundruð sinnum tekið þátt í því að vísa málum til nefndar sem ég hef verið andvígur. Ég er andvígur þessu máli en ég vil að umhvrh. fái nefndarálit þar sem tekið er upp fyrir hann og ég veit það fyrir fram að það verður gert.