Embættisfærsla umhverfisráðherra

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 14:39:45 (4016)


[14:39]
     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegi forseti. Með þessari atkvæðagreiðslu virðist svo sem meiri hlutinn hér á Alþingi ætli að koma í veg fyrir það að hægt sé að afgreiða þessa tillögu með eðlilegum hætti. Þetta er auðvitað á margan hátt mjög alvarlegt. Í fyrsta lagi er það mjög alvarlegt að ekki skuli vera möguleiki á því að athuga embættisfærslur einstakra ráðherra, að það skuli þykja svo alvarlegt mál að kanna það hvort embættisfærslur ráðherra séu með eðlilegum hætti eða að það skuli vera litið á það sem vantraust. Mér finnst það mjög sérkennilegt. Það er númer eitt.
    Hins vegar finnst mér þó sýnu alvarlegra það tilræði við þingræðið sem í þessu felst, þ.e. að ekki skuli vera hægt með eðlilegum hætti að afgreiða tillögur sem hér koma fram. Ég lýsi því yfir að með því að vísa málum til nefnda og milli umræðna sé ég ekki að taka efnislega afstöðu til málsins. Og ég segi þess vegna já, virðulegur forseti, vegna þess að mér þykir mjög alvarlegt ef þessi tillaga kemst ekki til síðari umr. og eðlilegrar umfjöllunar.