Refsiákvæði nokkurra skattalaga

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 15:13:07 (4019)


[15:13]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég tel það mjög ánægjulegt að frv. í þessa veru skuli koma fram á hinu háa Alþingi þó að stuttur tími sé eftir til þingloka, en allt um það, þá er þetta frv. búið að líta dagsins ljós og sýnir það að ríkisstjórnin hefur þá fullan vilja á því að taka á þessum skattsvikamálum. Vissulega get ég tekið undir það með hæstv. fjmrh. að það hefur ýmislegt verið gert í tíð þessarar ríkisstjórnar til þess að taka á þessum málum, m.a. verið lögð aukin áhersla á það með fjárlögum að setja aukna fjármuni til þessara mála og það hefur raunar skilað sér mjög vel aftur í auknum tekjum. Einnig hefur ýmislegt verið gert til bóta í sambandi við lagasetningu. Það hefur verið komið á embætti skattrannsóknarstjóra og ýmislegt slíkt mætti nefna.
    Það var einnig rætt fyrir jólin í tengslum við nýja lagasetningu um bókhald og ársreikninga að frv. í þessa veru mundi koma fram þar sem tekið væri á refsiákvæðum nokkurra skattalaga og bókhaldslög yrðu í samræmi við það. Með þessu frv. er verið að breyta lögum um tekjuskatt og eignarskatt, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um virðisaukaskatt þannig að það er tekið á öllum stærstu skattalagaþáttunum. Ég ætla ekki að fara í neina frekari efnisumræðu um þetta frv. Ég hygg að flestir á Alþingi og bara allir þingmenn fagni því að þetta sé hér komið fram. Efh.- og viðskn. fær þetta mál til meðferðar og ég efast ekkert um að hún mun leggja sig fram við það að fara yfir það. En að öðru leyti mun ég geyma mér að fjalla frekar um þetta frv. þangað til það kemur til 2. umr. ef svo fer á þessu þingi. Um framtíðina getur svo enginn sagt.