Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 16:16:20 (4028)

[16:16]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ef ég má vitna í samtal úti í salnum, þá færir hæstv. fjmrh. það fram sem alveg sérstök rök að þetta mál þurfi að komast til nefndar og fagna ég mjög þeim sinnaskiptum sem orðið hafa hjá hæstv. ríkisstjórn að nú sé það hið brýnasta mál að mál komist almennt til nefnda. Auðvitað er ég sammála því.
    Hæstv. forseti. Ég verð að játa að ég tel þetta ekki vera eitt af forgangsmálum sem ástæða væri til að eyða miklum tíma í núna þegar fáeinar vikur eru eftir af þinghaldinu og tel að því fyrr sem hæstv. fjmrh. verður það ljóst að það sé í raun tímasóun að vera að þrasa um þetta þeim mun betra. En ég að sjálfsögðu skorast ekki undan því að taka þátt í umræðum um þetta og koma mínum sjónarmiðum á framfæri úr því að hæstv. ríkisstjórn leggur svona mikla áherslu á að þetta komist á dagskrá og gangi til nefndar.
    Í fyrsta lagi vil ég segja, hæstv. forseti, að ég tel að þetta mál sigli að nokkru leyti undir fölsku flaggi vegna þess að það hefur verið látið að því liggja, gott ef það er ekki í greinargerð, þó man ég það ekki svo glöggt, að mál þetta tengist að einhverju leyti samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Verð ég að segja alveg eins og er að mér finnst þá leggjast lítið fyrir hina sömu ríkisstjórn og gekk frá þeim samningum og þar á meðal sérstökum fyrirvara Íslands, sem er samhljóða fyrirvara annarra Norðurlanda um, að við áskildum rétt til þess að viðhalda okkar fyrirkomulagi á útsölu áfengis sem hluta af okkar heilbrigðisstefnu þrátt fyrir samkeppnisákvæði samningsins um Evrópskt efnahagssvæði ef menn ætla að leka niður á því máli strax fáeinum missirum eftir að frá þessu var gengið í samningnum. Ég hygg að hér sé málið að hluta til sett fram undir fölsku flaggi og hér sé fyrst og fremst á ferðinni áhugi frjálshyggjuliðsins í ríkisstjórninni að einkavæða þessa starfsemi. Er þá græðgin farin að færast heldur betur upp í bekkinn þegar það á að hleypa einkarekstri í ágóðaskyni líka inn í sölu á vímuefni eins og hér á í hlut. Ég er algerlega andvígur slíku og tel að með sama hætti og ríkið, samfélagið, situr uppi með útgjöldin af vandamálum sem tengjast ofnotkun áfengis þá eigi að sjálfsögðu samfélagið eða opinberir aðilar, þeir sem bera útgjöldin, að njóta góðs af þeim tekjum sem dreifing þessarar vöru getur haft í för með sér.
    Það er ljóst að það er nauðsynlegt til þess að stemma stigu við ofnotkun þessara efna að þau séu höfð dýr. Það er sú leið sem flestar þjóðir velja og nú orðið eru aðeins fáar þjóðir í heiminum svo ábyrgðarlausar í þessum efnum að þær leyfi sölu á vínanda án þess að á hann séu lögð einhver gjöld til þess gagngert að reyna að stemma stigu við neyslunni og draga úr henni. Mjög víða og þar á meðal á Norðurlöndunum sem að öðru leyti þykja skara fram úr eða hafa þótt skara fram úr í þessum efnum eru þessi gjöld umtalsverð, mörg hundruð eða jafnvel þúsund prósent. Reynslan sýnir samt sem áður að ekki veitir af í baráttunni við þessi vandamál. Það er enginn vafi á því að með stefnu af þessu tagi hafa menn náð að hafa áhrif á áfengisnotkun og þar með líka á þau vandamál sem ofnotkun áfengis eru samfara. Tölur tala mjög skýru máli um það. Hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, sem er sú stofnun heimsins sem mest sinnir þessum málum, eru Norðurlöndin gjarnan tekin sérstaklega fyrir sem dæmi um það hvernig megi með markvissum aðgerðum stjórnvalda og skynsamlegri stefnu, aðhaldssamri stefnu í þessum efnum ná miklum árangri. T.d. er sá markverði árangur Svía að draga umtalsvert úr áfengisnotkun, þ.e. vínanda á mann, eins og þeim hefur tekist á undanförnum árum, gjarnan tekið sem dæmi um það þegar verið er að ræða þetta á alþjóðavettvangi hvaða árangri sé unnt að ná.
    Þessum árangri gætu menn fórnað með þeirri breytingu sem hér er að ástæðulausu verið að leggja til. Það er alveg sama hvað menn munu segja með það að reynslan sýnir okkur að það er öruggasta og skilvirkasta aðferðin í þessum efnum að ríkið eða opinberir aðilar haldi utan um meðferð þessara mála, þar með talið dreifinguna. Það hefur alls staðar orðið niðurstaðan og alls staðar orðið reynslan af þeirri ósköp

einföldu ástæðu að um leið og einkaaðilum er heimilað í ágóðaskyni að standa að einhverju leyti fyrir dreifingunni kemur til sögunnar viðbótarhvati fyrir þá að auka sölu á þeim vörum sem þeir fara með og nota til þess ýmsar aðferðir, bæði leyfilegar og óleyfilegar, eins og öllum er kunnugt um að ýmiss konar óleyfileg kynning eða auglýsingastarfsemi á sér stað og kannski erfitt að sporna við því að öllu leyti. Þó manni finnist skörin vera farin að færast upp í bekkinn upp á síðkastið, samanber auglýsingar í blöðum og annað því um líkt þá mun taka steininn úr í þeim efnum ef tugum ef ekki hundruðum einkaaðila verður gert frjálst að standa fyrir dreifingu og sölu á þessari vöru t.d. til allra vínveitingastaða í landinu. Auðvitað gefur það auga leið að þar með muni um leið koma til sögunnar stóraukinn hvati fyrir þessa aðila til þess að auka söluna á sínum tegundum. Sá hvati mun finna sér farveg í formi einhverra aðgerða sem menn komast til að gera.
    Ég hlusta því ósköp einfaldlega ekki á órökstuddar fullyrðingar og sleggjudóma um það að með því einu að hafa bara gjald áfram á vörunni þá sé það jafngilt að þetta sé í höndum ríkisins. Það er ekki svo og hefur hvergi reynst svo. Niðurstaðan af því þar sem þessu hefur verið breytt hefur alls staðar orðið sú sama. Neyslan hefur aukist og skýrustu dæmin um það má finna til að mynda í samanburði milli fylkja í Bandaríkjunum þar sem þetta er mismunandi. Í mörgum fylkjum Bandaríkjanna er ströng og aðhaldssöm löggjöf í þessum efnum og opinberir aðilar hafa einkarétt á dreifingunni en í öðrum er þetta frjálst og þar hefur niðuðstaðan án undantekninga, a.m.k. í alveg yfirgnæfandi fjölda tilvika, orðið sú sama að neyslan vex og samanburðurinn er frá áfengisvarnasjónarmiði séð óhagstæður þeim aðilum þar sem opinberir aðilar sleppa hendinni af þessu máli.
    Það er þetta ekki síst, hæstv. forseti, sem ég hafði hugsað mér að fá að ræða við hæstv. heilbrrh. Er það svo að það sé til marks um gerbreytta stefnu ríkisstjórnarinnar í áfengisvarnamálum að leggja til þessa breytingu? Ef svo er ekki og menn eru að blekkja sjálfan sig til að halda að í þessu felist engin breyting, þá fullyrði ég að það er misskilningur. Hæstv. heilbrrh. verður þá að fara heim og lesa betur. Ég er viss um að það verða einhverjir góðhjartaðir menn til þess að gauka að honum upplýsingum um það mál. Það er algerlega borin von að horfa fram hjá því að breyting af þessu tagi er í fullkominni andstöðu við til að mynda ákvæði frv. sem hæstv. núv. heilbrrh. sýndi á þinginu veturinn 1991--1992. Í frv. til laga um áfengisvarnir og aðrar vímuefnavarnir var gert ráð fyrir því að ríkið héldi utan um þessi mál og menn rækju mjög aðhaldssama stefnu í sambandi við dreifingu og aðgengi manna að áfengi og öðrum vímuefnum. Hvar er sú stefna nú? Hefur orðið einhver grundvallarbreyting á viðhorfum hæstv. heilbrrh. og hæstv. ríkisstjórnar í þessum efnum? Ég spyr.
    Það er auðvitað kostulegt að á þessu þingi flutti einn af núv. hæstv. ráðherrum í ríkisstjórninni frv. til laga um breytingu á áfengislögum sem gengur algerlega þvert gegn þessari stefnu. Þar er verið að tala fyrir allt öðrum viðhorfum, þ.e. þeim að vara enn betur við hættum sem kunna að vera samfara þessari notkun. Er þá hæstv. félmrh. búinn að skipta algerlega um skoðun eða er hún gengin úr ríkisstjórninni eða hver er afstaða hennar til þessa stjfrv.? Eða eru menn enn að blekkja sig til að halda að þetta skipti engu máli, þetta sé bara einhver saklaus, einföld kerfisbreyting sem hafi engin áhrif á stefnu stjórnvalda í áfengisvarnamálum? Það er þá mikill misskilningur.
    Sama mætti segja um fleiri þingmál og afstöðu sem birst hefur á undanförnum árum að auðvitað væri þetta gagnger stefnubreyting og grundvallarstefnubreyting í þessum efnum. Ég hélt satt best að segja að það væri sæmilega þverpólitísk samstaða um það að hér á Íslandi eins og á hinum Norðurlöndunum vildu menn reka aðhaldssama stefnu í þessum efnum og veitir nú ekki af eins og þróunin hefur því miður orðið, til að mynda stóraukin unglingadrykkja og að drykkjan hefur sannarlega samkvæmt könnunum færst niður í yngri aldurshópa. Því miður hafa þá sannast varnaðarorð þeirra sem mæltu gegn því hvernig bjór var lögleiddur hérna á sínum tíma, að í kjölfarið mundi sigla þróun af þessu tagi eða öfugþróun og það hefur því miður orðið raunin á. Er þá ástæða til að bæta við breytingu af þessu tagi og taka áhættu af henni? Ég held ekki. Menn gætu sagt sem svo að ef við hefðum náð t.d. jafnmarktækum árangri í þessum efnum og Svíar náðu á árabili að við hefðum frekar efni á því að taka einhverja áhættu af því að kerfisbreyting af þessu tagi væri gerð ef einhver önnur rök mæltu með henni sem ég tel reyndar ekki vera, en því er ekki að heilsa því miður.
    Er það ekki þvert á móti þannig, hæstv. forseti, að það standi yfir sérstakt átak í þjóðfélaginu gegn unglingadrykkju, svo dæmi sé tekið, og það sé verið að reyna að safna saman aðilum til að leggja kraftana saman í það að sporna gegn þeirri skelfilegu þróun sem þar er í gangi, að við höfum á skömmum tíma, á stuttu árabili, horft á meðalaldurinn þegar áfengisneyslan hefst færast niður um kannski 1--1,5 ár? Ég meina, hafa menn engar áhyggjur af því? Er það bara til nota á sunnudögum að standa fyrir einhverju átaki gegn unglingadrykkju en vera svo með breytingar af þessu tagi í farvatninu sem ganga í þveröfuga átt að allra mati sem um þessi mál fjalla?
    Ég fullyrði það að hæstv. fjmrh. eða hæstv. ríkisstjórn finna engan einasta aðila sem hefur komið að áfengisvarnamálum, hvorki hér innan lands í áfengisvarnaráði, heilbrigðisstéttum eða annars staðar né heldur erlendis hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni sem mælir ekki gegn breytingu af þessu tagi. Ég held að það sé alveg sameiginlegt yfir línuna að það hafi verið afstaða þeirra manna sem þessum málum sinna, eru að kljást við vandann sjálfir, að það eigi að reka þessa aðhaldssömu stefnu. Og það er sorglegt ef Norðurlöndin sem hafa fram að þessu haft kjark í sér, ég vil segja manndóm í sér, til þess að þora að standa

á sinni stefnu í þessum efnum ætla að leka niður í þessu tilviki og jafnvel án þess að láta þá a.m.k. á það reyna fyrst fyrir þessum fínu dómstólum sem búið er að setja upp samkvæmt EES, ESB eða hvað það nú er, að þeim sé þá ekki stætt á því að hafa sjálfstæða stefnu í þessum efnum.
    Það segir svo sína sögu um battaríið sem menn eru gengnir í ef það yrði niðurstaðan að það yrði dæmt ólöglegt fyrir Íslendinga, Norðmenn og Svía til að mynda að reka sjálfstæða heilbrigðisstefnu að þessu leytinu til og við skyldum vesgú taka hér upp að þessu leyti til fyrirkomulag og siðu annarra þjóða sem ekki hafa gefist vel í löndum þar sem allt önnur viðhorf ríkja í þessu efni eins og í sunnanverðri Evrópu.
    Ég segi alveg eins og er að ég skora á menn a.m.k. að láta fyrr reyna á þennan fyrirvara og láta ganga dóm og það koma í ljós hvort fyrirvarar Norðurlandanna halda í þessu efni eða ekki hvað varðar þann þátt málsins auk þess sem ég sé ekki annað en setja mætti undir þann leka með öðrum aðferðum. Aðfinnslur þeirra aðila, sem eru með þessi samkeppnismál og ákvæði EES og Evrópuréttarins á heilanum, hafa meira snúið að því að fyrirkomulagið sem slíkt mætti ekki mismuna aðilum og e.t.v. yrði að breyta þeim reglum sem hafa gilt um innkaup, val á tegundum og annað slíkt til að tryggja þar fullkomið jafnræði. Gott og vel. Því er hægt að breyta með einföldum hætti þannig að ekki sé á nokkurn hátt lengur á valdi hins opinbera söluaðila eða dreifingaraðila hvaða tegundir eru á boðstólum og allir hafi þar jafnan rétt frá öllum löndum ef svo ber undir ef mannréttindin felast nú orðið í því að geta fengið hvaða tegund sem vera skal. Því er auðvelt að breyta án þess að leggja niður þetta grundvallarfyrirkomulag sem við höfum byggt á og hefur verið hluti af áfengislöggjöf okkar í gegnum tíðina.
    Síðan kemur aðeins að því, hæstv. forseti, að ég held að menn þurfi líka aðeins að átta sig á rekstri þessa fyrirtækis sem menn hafa verið með í höndunum og hverju menn væru að fórna í því sambandi. Nú er það svo að áfengisvandamál kosta stórkostleg útgjöld í samfélaginu, bæði bein og óbein. Það er auðvitað ljóst að hið opinbera, sérstaklega ríki og einnig sveitarfélög, hafa milljarða útgjöld sem leiða beint af áfengisvandamálum. Óbeini kostnaðurinn er síðan umtalsverður til viðbótar úti í samfélaginu, hjá fyrirtækjum, opinberum aðilum vegna vinnutaps og annað því um líkt og svo ekki sé minnst á hjá einstaklingunum sjálfum. Upp í þennan kostnað hafa menn þó verið sammála um að taka allan hagnaðinn af dreifingu þessarar vöru í landinu og þau gjöld sem á hana eru lögð til að hafa áhrif á notkunina. En það er að mínu mati alveg ljóst að í kjölfar breytingar af því tagi sem verið er að leggja til mundi sigla þróun sem hefði í för með sér að hundruð milljóna eða jafnvel þúsundir mundu tapast út úr kerfinu og ganga til annarra aðila en þeirra sem sitja uppi með útgjöldin. Ég er alveg sannfærður um að það yrði þróunin. Á skömmum tíma, fáeinum árum, mundi blómgast hér umfangsmikill einkapraxís sem færði auðvitað til gjalda allan kostnað sem hægt væri að heimfæra upp á starfsemi þeirra og menn yrðu að beygja sig fyrir því að svigrúmið til að leggja á gjöld til ríkissjóðs minnkar að sama skapi miðað við einhverja fasta verðviðmiðun í útsölu. Þannig mundi það vera. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. fjmrh. að bera á móti því. Ætli áhugi þeirra aðila sem eru auðvitað sólgnir í að komast inn í rekstur þeirra stafi af því að þeir eigi sér það að hugsjón að selja brennivín? Nei, ég er ekki viss um það. Mig grunar að það sé vegna þess að þeir eigi von á því að hagnast á því. Ég held að það geti verið. Ég er svo illa innrættur og þenkjandi að mér dettur þetta í hug. En það er auðvitað alveg ljóst að ýmsir aðilar úti í þjóðfélaginu eru banhungraðir í það að komast inn í umsvif á þessu sviði, naga þröskuldinn hjá hæstv. fjmrh. til þess að komast inn fyrir og fara að höndla á þessu sviði. Það er ástæðulaust held ég og væri sorgleg afturför og uppgjöf ef menn gæfust upp á slíku. Ég held að það eigi því ekki að gera þessa breytingu á verslun ríkisins með áfengi og tóbak. Það eigi að reka Áfengis- og tóbaksverslunina eins og hún hefur verið rekin og það eigi að ráðstafa öllum hagnaðinum af henni til samfélagsins til að mæta þeim útgjöldum eða hluta þeirra útgjalda sem þessum málum eru samfara.
    Hæstv. fjmrh. vann m.a. það afrek snemma á ferli sínum að afhenda einhverjum einkaaðilum framleiðsludeild Áfengis- og tóbaksverslunarinnar. Það hefur síðan verið reiknað út að hún fór fyrir lítið eins og fleira sem hæstv. ráðherra hefur einkavætt og ég er viss um að þó að hæstv. ráðherra hafi orðið að löngun sinni að selja Búnaðarbankann á hálfvirði hefði það verið betri bisness en út úr því kom þegar hann afhenti framleiðsludeild ÁTVR með öllum þeim vörumerkjum og þess vegna getum við sagt viðskiptavild og öllu sem þar var á ferðinni fyrir einhverjar 15 millj. kr. ef ég man rétt, upphæð af þeirri stærðargráðu. Það kemur svo auðvitað í ljós að hagnaðurinn af þessari deild var umtalsverður á hverju ári, einar 6--8 millj., auk þess sem hún lagði verulega af mörkum í sameiginlegan kostnað hjá fyrirtækinu. Mig minnir að það hafi verið talið að samtals legði deildin með sér upp í sameiginlegan kostnað og í hagnað 17 millj. á ári síðustu árin sem hún var rekin, en svo er þetta allt afhent á einu bretti einkaaðilum fyrir 15 og það fannst mér satt best að segja alveg ákaflega dapurleg ráðstöfun. Með því er verið að veikja nokkuð þetta fyrirtæki án þess að ég sjái að það þjóni nokkrum tilgangi. Það gat verið sjálfstætt mál út af fyrir sig og allt í lagi með það eins og reyndar var búið að leyfa að einkaaðilar gætu spreytt sig við framleiðslu á þessu sviði og allt í góðu lagi með það, sérstaklega ef þeir gætu flutt eitthvað af því út, komið því ofan í aðra en hitt var allt annað mál og alveg ástæðulaust eftir sem áður að afhenda þessa framleiðslu sem Áfengis- og tóbaksverslunin hafði haft með höndum. Ég held að það sé alveg ljóst að ef af þessari breytingu yrði þá yrði Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins ekki nema svipur hjá sjón og svo gott sem komist stærsta skref í að leggja hana niður og færa þetta í formi einfaldrar innheimtu inn í ríkissjóð og það held ég að væri mikil afturför.

    Hæstv. forseti. Það hefði nú verið ástæða til þess að fara að fá fréttir af því hvernig þeim líður, hæstv. dómsmrh. og hæstv. heilbrrh., því að ég tel það ekki ganga að umræðan eigi að halda áfram endalaust án þess að orðið verði við óskum um að þeir verði kallaðir til fundar.
    ( Forseti (GHelg) : Forseti vonar að sjálfsögðu að þeim líði vel en sá forseti, sem nýlega yfirgaf staðinn, upplýsti að búið væri að koma boðum til þeirra og þeir beðnir um að koma hingað. Frekari upplýsingar hefur forseti ekki.)
    Hæstv. forseti. Ég get út af fyrir sig fallist á að ljúka minni . . .


    ( Forseti (GHelg) : Forseti vill biðjast afsökunar. Hæstv. fjmrh. hefur upplýst að hæstv. dómsmrh. muni vera í leyfi í dag þannig að það er hæstv. viðskrh. sem kemur hingað væntanlega innan tíðar.)
    Hæstv. heilbrrh., já. Það er mjög slæmt, hæstv. forseti, og ég vona þá í öllu falli að þessari umræðu ljúki ekki áður en hæstv. dómsmrh. kemur úr leyfi sínu og getur komið hér og tekið þátt í umræðunni og mælt fyrir því frv. sem honum mun vera ætlað að flytja sem hluta af pakka ríkisstjórnarinnar og ég tel það í raun og veru ekki ganga að málin séu þannig tætt í sundur að þessir hæstv. ráðherrar verði ekki hér að einhverju leyti viðstaddir umræðuna að þeir geti svarað spurningum. Ég skal fallast á að ljúka ræðu minni núna í þessari umferð og leggja þá mínar spurningar fyrir hæstv. heilbrrh. þegar hann kemst til fundar eða einhvern tíma síðar en ég tel að alveg nauðsynlegt sé að fá það fram og í raun og veru eðlilegt að á því væri byrjað að fá þá einhverjar upplýsingar um stefnu hæstv. ríkisstjórnar í þessum málum. Ég tel að hún hafi ekki af svo miklu að má hvað frammistöðu snertir á þessu sviði að á það sé bætandi að hún ætli að enda feril sinn með því að reyna að troða þessu í gegnum þingið. Hæstv. heilbrrh., þeir hafa víst verið fleiri en einn í þessari ríkisstjórn, þeir hafa reynst skammlífir sumir og hæstv. núverandi var að koma á heimaslóðir á nýjan leik við svona misjafna hrifningu þjóðarinnar að endurheimta hann sem heilbrrh. í það starf. Eftir stendur það að ég man nú ekki til þess að það hafi verið mikið aðhafst eða gert sem tíðindum sætir á þessu sviði í tíð ríkisstjórnarinnar nema ef það á að vera þetta, að þetta eigi að vera minnismerki um stefnu ríkisstjórnarinnar í áfengisvarnamálum að afnema einkarétt ríkisins til sölu og dreifingar á áfengi í tengslum við hið opinbera átak um að stöðva unglingadrykkjuna. Það væri öllu nær, hæstv. forseti, að við værum að fjalla um einhverja áætlun eða tillögu frá hæstv. ríkisstjórn, til að mynda hæstv. heilbrrh., um aðgerðir í þessum efnum þar sem menn væru til að mynda að ákveða að ráðstafa einhverjum umtalsverðum fjármunum í sérstakt átak á þessu sviði og menn stæðu hins vegar saman um að verja rétt Íslands til þess að reka sjálfstæða löggjöf eftir okkar þörfum og á grundvelli okkar viðhorfa og þeirra sem ríkt hafa og annars staðar á Norðurlöndunum í gegnum þykkt og þunnt og menn sneru þá bökum saman um að láta þá fyrr dæma það fyrirkomulag ólöglegt en gefa það upp fyrir fram. Einhver verkefni verða þessir fínu dómstólar þarna að hafa.
    Fróðlegt væri, hæstv. forseti, að heyra svo betur um það frá hæstv. ráðherrum hvernig þeir hafa hugsað sér ef þessi breyting ætti að ná fram að ganga að fylgjast með því fyrirkomulagi varðandi sölu og dreifingu á áfengi sem þá tæki við. Það er nú frægt að Íslendingar eru allra manna duglegastir við að ná sér í umboð fyrir vörur og fleiri tugir heildsala og heildsölufyrirtækja og jafnvel einstaklinga hér á landi sem hafa umboð fyrir mismunandi tegundir áfengis. Það er alveg ljóst að ef þessi breyting verður getur hver einasti maður í þessum hópi og allir þeir til viðbótar sem geta þefað úti í löndum uppi einhvers staðar eitthvert merki á áfengi, hafið innflutning á þessum vörum og farið í það að reyna að koma þeim á framfæri við vínveitingastaði, veitingahús og aðra. Við skulum segja að í þessum hópi yrðu um 300 aðilar. Við skulum bara segja það, hæstv. heilbrrh. Og þeir væru akandi um bæinn með sýnishorn af sinni framleiðslu að reyna að koma þessu á framfæri. Hvernig ætlar hæstv. ríkisstjórn að hafa eftirlit með þessu kerfi? Hefur hæstv. ríkisstjórn engar áhyggjur af því að þetta geti orðið svolítið laust í reipunum og erfitt að ná utan um hvernig staðið yrði að framkvæmdinni? Auðvitað er það alveg morgunljóst að menn væru búnir að missa meira og minna öll tök á því að hafa eftirlit með þessu þegar svo væri komið og stigsmunur en ekki eðlis á því að gefa þá bara söluna á þessu endanlega frjálsa og þetta gæti verið hvar sem er á boðstólunum. Það er næsti bær við, það er þannig. Menn verða bara að ræða þessa hluti eins og þeir eru.
    Það eru auðvitað sjónarmið út af fyrir sig að ekkert sé hægt að halda utan um þessi mál að þessu leyti og það eigi bara að gefa þetta allt frjálst eins og það er kallað því að alltaf er það nú frelsið sem er mönnum svo ofarlega í huga, líka frelsi til þess að fara sér að voða einhvers staðar. Það er vissulega sjónarmið sem hægt er að hlusta á að í staðinn eigi stjórnvöld að einbeita sér að því að reka grimman áróður gegn misnotkun á þessu sviði og halda uppi öflugri fræðslu o.s.frv. En er þá frammistaða okkar í þeim efnum trúverðug? Höfum við verið að undirbúa akurinn fyrir breytingar af því tagi ef það væri meiningin? Tala tölurnar sínu máli um það? Er það ekki þannig að reykingar eru að stóraukast í skólunum á nýjan leik, hjá þeim aldurshópum sem eru í skólum? Er það ekki þannig að drykkjan er að stóraukast meðal unglinga og færast niður í yngri aldurshópa? Bendir það til þess að við höfum efni á því að slaka á á einhverju sviði þar sem hægt er að hafa eitthvert aðhald og halda utan um þessi mál? Ég held ekki.
    Frammistaðan er auðvitað þannig í þessu efni að hún gefur því miður okkur Íslendingum ekki nógu góða einkunn og við höfum að nokkru leyti sannarlega dregist aftur úr hinum Norðurlöndunum, að undanskildum Dönum sem hafa lengi verið á öðru róli í þessu en við, og hafa náð miklum árangri. Auðvitað er engin tilviljun að þar er ástandið verst, þ.e. í Danmörku og í Grænlandi sem er með sömu áfengislöggjöf og Danmörk sjálf og þarf ekki að fara um það fleiri orðum hvernig afleiðingar þess hafa orðið fyrir þá aumingja þjóð.
    Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að velta því nú alvarlega fyrir sér hvort hún hafi ekki eitthvað þarfara að gera á síðustu vikum þinghaldsins heldur en vera að nudda með þessi mál. Það er alveg ljóst að þetta er mjög umdeild breyting, hæstv. fjmrh., og ég get fyrir mitt leyti hafi það ekki skilist hingað til í ræðu minni lýst mig þegar algerlega andvígan henni og hef mikinn áhuga á því að koma í veg fyrir að hún nái hér fram að ganga svo vægt sé til orða tekið. Ég held að þetta sé ekki neitt framfaraspor sem með þessu væri verið að stíga og mig grunar að svo verði um fleiri þingmenn og þá fer þetta að verða spurning fyrir hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn hvort ekki sé hægt að sameinast um það að reyna að gera eitthvað sem þarfara megi teljast. Við vorum til að mynda að ræða um mál áðan sem væri miklu æskilegra og þýðingarmeira að gera ef við gæfum okkur tíma til að vinna vel í því. Það varðaði tilhögun á innheimtu þungaskatts á olíu og það er svo um fleiri mál sem hér liggja fyrir þinginu að það væri æskilegt þó margt sé misjafnlega gáfulegt sem hefur verið flutt á þessum vetri, sérstaklega frá hæstv. ríkisstjórn auðvitað, þá er innan um og í bland margt sem væri þarft og áhugavert að kæmist fram á þessum skamma tíma sem er til stefnu. Ég vil segja kost og löst á þeim hlutum og hef lýst mig samþykkan ýmsu, þar á meðal þessu síðasta frv. sem var hér til umræðu en ég get ekki undir nokkrum kringumstæðum fallist á að það sé eitthvert forgangsmál eða brýnt eða þarft að nuddast áfram með þetta í fullkominni andstöðu við alla þá aðila í landinu sem eru að sinna áfengis- og vímuvarnastörfum, í andstöðu við heilbrigðisstéttirnar, í andstöðu við starfsmenn Áfengis- og tóbaksverslunarinnar og í andstöðu við marga þingmenn hér sem ég hygg að eigi eftir að koma í ljós. Okkur væri því náttúrlega fyrir bestu að ná saman um það að víkja þessu máli út af dagskrá sem allra, allra fyrst. Út af fyrir sig er allt í lagi að það fái að fara til nefndar því að það er náttúrlega sjálfsagt réttlætismál í sjálfu sér ef tíminn leyfir og vinnst til að málið fái þinglega meðferð. Sem betur fer var skynsemin hinu gagnstæða yfirsterkari í dag og í frægri atkvæðagreiðslu var það samþykkt að umdeilt mál fengi þó í öllu falli þinglega meðferð og ég ætla svo sannarlega ekki að fara að leggjast gegn því í þessu tilviki þó að ég sé algerlega andvígur málinu og mun þess vegna greiða því atkvæði að það fari til 2. umr. og nefndar, mér dettur ekki annað í hug. En það felur ekki í sér að ég sé að samþykkja það, að sjálfsögðu ekki, að fallast á innihald þess.
    Það er svo væntanlega hér næst á dagskránni, hæstv. forseti, fylgifrv. þessa máls sem út af fyrir sig var ekkert óeðlilegt að tengist í umfjölluninni því að í kjölfar afnáms einkaleyfis Áfengis- og tóbaksverslunarinnar, sem hér er verið að leggja til og þarf reyndar þó fyrst og fremst að taka í gegn með breytingu á áfengislögum, koma breytingar sem verður að gera á tilhögun þessara mála. Þá er ljóst að það er ekki lengur hægt að taka allar tekjur og alla álagningu á áfengi inn í gegnum rekstrarhagnað Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins eins og gert hefur verið og hefur í raun og veru verið afar einföld aðferð til þess að skattleggja þessa vöru að á hana hefur verið lagt hátt gjald sem Áfengis- og tóbaksverslunin innheimtir við sölu og skilar svo í formi hagnaðar í ríkissjóð og er einfalt og skilvirkt fyrirkomulag sem ég veit ekki til að neinir meinbugir hafi verið á. Þetta er að sjálfsögðu ekki hægt ef tugir eða hundruð einkaaðila færu að annast um dreifingu þessarar vöru. Ekki yrði nú auðfenginn í ríkissjóð hagnaðurinn af þeirra atvinnustarfsemi hygg ég enda ætlunin önnur. Menn ætluðu auðvitað út í þetta til þess að græða á því. Þá yrði að nota aðrar aðferðir, sem sagt væntanlega þær að leggja gjald á vöruna við innflutning eða sölu sem skilað væri í ríkissjóð og þar með mundi náttúrlega innheimtumönnum ríkissjóðs fjölga til mikilla muna og ný sveit, vínhöndlararnir, bætast við. Ég sé enga framför í því og get ekki séð að það sé neitt réttlætismál í neinu tilliti, hvorki frá atvinnufrelsislegum sjónarmiðum séð né samfélagslegum viðmiðunum að menn eigi einhvern rétt á því að gera sér þessa starfsemi að féþúfu. Öðru nær finnst mér það vera heldur svona ógeðfellt, ég verð að segja það alveg eins og er, heldur ógeðfellt þegar komið er út á þetta svið að það sé yfir höfuð verið að innleiða þar viðhorf og lögmál einkarekstrar í hagnaðarskyni. Og ég er almennt þeirrar skoðunar að í velferðarkerfinu og á viðkvæmum sviðum eins og þessum eigi slík sjónarmið ekki heima, starfsemi sem beint er rekin í þágu samfélagsins vegna slíkra viðfangsefna eða þegar um er að ræða vandasamt jafnvægi af þessu tagi þar sem menn hafa út af fyrir sig orðið sammála um að á því sé ekki stætt eða menn telja það ekki samrýmast nútímalegum viðhorfum eða hvernig það skal nú orðað að banna notkun þessarar vöru en á hinn bóginn viðurkennt í flestum samfélögum heims að um þá notkun verða hins vegar að gilda strangar reglur þá má segja að við séum á ákveðnu gráu svæði með áfengi sem liggi á milli vímuefna sem eru bönnuð, þ.e. hverra notkun er bönnuð, og hins sem ekki er talin ástæða til að hafa sérstakar áhyggjur af þó að í því geti falist einhver óhollusta eða annað því um líkt. Þá held ég að það sé að mörgu leyti skynsamlegasta niðurstaðan að opinberir aðilar hafi þá slíka starfsemi með höndum, enda er nóg annað fyrir athafnasama einkarekstrarmenn að gera og mikið væri það ánægjulegra ef maður sæi þessa orku beinast að því t.d. að finna ábatasama möguleika til útflutnings og aukinnar verðmætasköpunar í landinu heldur en þá græðgi sem manni birtist í baráttu sumra aðila fyrir því að komast inn í atvinnustarfsemi sem tengist því að flytja þessa vöru inn og dreifa henni hér innan lands. Og ef menn gætu með einhverjum hætti sameinast um að beisla þá orku í jákvæðari farveg og samfélagslega heppilegri heldur en þetta þá væri það vel til vinnandi.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð í þessari umferð en ítreka það að ég óska

eftir því að umræðunni ljúki ekki fyrr en þeir ráðherrar sem ég hef beðið um komi til umræðunnar þannig að hægt verði að leggja spurningar fyrir þá, hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni sem sannarlega fara með mál á þessu sviði, þ.e. annars vegar hæstv. dómsmrh. sem er ástæða til að svari fyrir þetta mál á ýmsa lund, líka hvað eftirlitsþáttinn snertir og fleira þar fram eftir götunum en síðast ekki síst hæstv. heilbrrh. sem ber ábyrgð á þessum málum út frá heilbrigðis- og hollustusjónarmiðum séð. Það er auðvitað alger óhæfa að ljúka þessari umræðu eða í raun og veru halda henni mikið áfram án þess að sá hæstv. ráðherra komi hér til fundar.