Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 17:00:21 (4032)

[17:00]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er aldrei jafnyndislegt að heyra menn úthúða ríkinu og allt sem ríkis er, eins og þegar þeir eru sjálfir ráðherrar og fara með völd ríkisins og hafa haft mestalla ævi sína framfæri hjá hinu opinbera eins og hæstv. fjmrh. hefur haft. Og auðvitað dálítið furðulegt að menn skuli þvert gegn sannfæringu sinni um hið illa vald samfélaganna, ríkið, vera að kássast upp á það og vinna hjá því. Ég veit ekki til þess að neinn maður hafi neytt núv. hæstv. fjmrh. til þess að vera ríkisstarfsmaður alla sína ævi. Hæstv. ráðherra talar stundum eins og þetta séu ill örlög.
    Auðvitað þýðir ekkert að mæla á móti því, hæstv. ráðherra, að þetta er grundvallarbreyting hvað fyrirkomulag snertir. Ríkið annast um dreifinguna í dag. Ríkið jafnar flutningskostnaðinn. Þetta hverfur allt úr sögunni og þessir aðilar fá sjálfir frelsi til þess að fara með þetta um og falbjóða þetta hverjum einasta aðila sem áfengisveitingaleyfi hefur. Það stendur skýrt í frv. og fylgiskjölum eða útskýringum með því þannig að hæstv. ráðherra getur ekki neitað því. Og ég skýt því að í leiðinni, ég fékk þær upplýsingar hér úti í salnum, að það mun hafa verið núv. forstjóri Tryggingastofnunar, fyrrv. hv. þm. Karl Steinar Guðnason, sem frelsaði eldspýturnar en ekki Sjálfstfl. Það var mikið baráttumál Alþfl. um árabil að frelsa eldspýturnar og það hafðist eftir áralanga glímu. En mér er ekki kunnugt um að Sjálfstfl. hafi komið nokkurs staðar nærri því máli. Þetta fer því að verða hið versta mál sem hæstv. fjmrh. var að rifja upp með eldspýturnar.
    Varðandi EES-dóminn sem hæstv. ráðherra nefndi áðan þá hélt ég nú að þessi fyrirvari hefði verið settur inn og veit það reyndar að hann var settur inn gagngert til þess að styrkja hugsanlega málflutningsstöðu Íslands ef til dómstólameðferðar kæmi. Það stendur í skýringum með fyrirvaranum sem var lagður fram af Íslands hálfu og hinna Norðurlandanna, að þetta væri gert til þess að styrkja stöðu Norðurlandanna ef Evrópudómstóllinn eða EFTA-dómstóllinn færi í að fella dóma um það hvort þetta fyrirkomulag stæðist samkvæmt samkeppnisákvæðum Evrópuréttarins. Ætla menn þá bara að gefa það upp á bátinn fyrir fram? Má ekki einu sinni láta á það reyna? Hvers konar aumingjaskapur er þetta?