Leigubifreiðar

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 17:39:11 (4037)

[17:39]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Með frv. þessu er lagt til að sett verði ný heildarlöggjöf um leigubifreiðar í stað gildandi laga um leigubifreiðar frá árinu 1989. Á síðasta löggjafarþingi var lagt fram frv. til breytinga á lögum um leigubifreiðar en varð ekki útrætt.
    Þetta frv. er efnislega svipað hinu fyrra að öðru leyti en því að breytingarnar hafa verið felldar inn í meginmál laga nr. 77/1989 og lagt fram frv. til nýrra heildarlaga um leigubifreiðar. Frv. þetta er samið í samgrn. og leitað hefur verið álits hagsmunaaðila. Tilgangur þess er einkum að gera nauðsynlegar breytingar til samræmis við niðurstöður Mannréttindadómstóls Evrópu vegna kæru leigubifreiðarstjóra á hendur íslenska ríkinu vegna ákvæðis í lögum um leigubifreiðar um félagsskyldu. Dómurinn taldi þau ákvæði fara gegn mannréttindasáttmála Evrópu. Helstu breytingar frv. eru þessar:
    Gerðar eru nauðsynlegar breytingar í framhaldi af dómi Mannréttindadómstóls Evrópu og afnumin skylda bifreiðarstjóra til að vera í einu og sama stéttarfélagi á þeim svæðum þar sem heimiluð hefur verið takmörkun á fjölda bifreiða í leiguakstri. Lagt er til að sama regla varðandi hámarksaldur gildi um alla atvinnubifreiðarstjóra sem lög þessi taka til, þ.e. jafnt til fólks-, sendi- og vörubifreiðarstjóra á takmörkunarsvæðum sem utan þeirra og verði í því efni miðað við lok 70 ára aldurs. Í ákvæði til bráðabirgða er lagt til að þeir sem stunda akstur leilgubifreiða við gildistöku laganna haldi atvinnuréttindum sínum óskertum til 1. jan. 1996. Eftir þann tíma rennur heimild allra bifreiðarstjóra sem stunda akstur leigubifreiða samkvæmt lögum þessum út við lok 70 ára aldurs þeirra. Þessi aðlögunartími tekur til þeirra bifreiðarstjóra sem reglan um hámarksaldur hefur ekki þegar náð til.
    Samhliða þessu frv. er lagt fram frv. til laga um breytingu á lögum um vöruflutninga á landi og lögum um skipulag á fólksflutningum með langferðabifreiðum. Þau frumvörp mæla fyrir um sams konar reglu hjá bifreiðarstjórum flutningabifreiða og hópbifreiða. Með samþykkt þessara frumvarpa verður í þessu efni komið á jafnræði milli allra þeirra sem stunda akstur bifreiða að atvinnu samkvæmt þessum lögum.
    Í 3. gr. frv. er lagt til að allir bifreiðarstjórar í leiguakstri verði að uppfylla sömu skilyrði til að stunda slíkan akstur. Fram til þessa hafa einungis fólksbifreiðarstjórar í leiguakstri á svæðum þar sem takmörkun hefur verið ákveðin þurft að uppfylla slík skilyrði.
    Allir fólksbifreiðarstjórar í leiguakstri verða að uppfylla skilyrði þessi til að fá útgefið atvinnuleyfi. Sama gildir um alla sendi- og vörubifreiðarstjóra sem stunda leiguakstur.
    Skilyrði þau sem hér er kveðið á um eru efnislega í samræmi við 8. gr. laganna. Þau eru einnig í samræmi við þau skilyrði sem sett hafa verið öðrum bifreiðarstjórum í framhaldi af aðild Íslands að samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði, sbr. lög um skipulag á fólksflutningum með langferðabifreiðum og lög um vöruflutninga á landi.
    Í 4. gr. frv. er fjallað um heimildir til að takmarka fjölda leigubifreiða, en þetta á við um fólksbifreiðar í leiguakstri, vörubifreiðar og sendibifreiðar. Þróun mála hefur orðið misjöfn eftir því um hvaða flokk bifreiða er að ræða. Nú er í gildi takmörkun á svæðum fimm fólksbifreiðarstjórafélaga, 28 vörubifreiðarstjórafélaga og þriggja sendibifreiðarstjórafélaga.
    Í 4. gr. frv. er miðað við að ákvæði um heimild til takmörkunar verði efnislega samhljóða gildandi ákvæðum 5. gr. laganna og samgrn. verði heimilt að takmarka fjölda allra leigubifreiða. Verði slík takmörkun ákveðin er miðað við að um hana gildi II. kafli laganna verði frv. þetta að lögum.
    Fjöldi fólksbifreiða í leiguakstri er nú takmarkaður á fimm stöðum á landinu, á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, Akureyri, Ísafirði og Selfossi. Takmörkunin er framkvæmd með útgáfu atvinnuleyfa til einstakra leigubifreiðarstjóra sem sérstakar umsjónarnefndir annast. Þetta atvinnuleyfakerfi hefur nú staðið í áratugi og er orðið mjög fast í sessi.
    II. kafli frv. er í meginatriðum í samræmi við IV. kafla gildandi laga að öðru leyti en því að uppsetningu kaflans hefur verið breytt. Þá er það nýmæli að allir fólksbifreiðarstjórar í leiguakstri þurfi atvinnuleyfi. Fram til þessa hafa einungis verið gefin út atvinnuleyfi á þeim svæðum þar sem heimiluð hefur verið takmörkun á fjölda bifreiða en utan þeirra hefur ekki verið krafist sérstaks leyfis, hvorki frá samgrn. né viðkomandi sveitarstjórnum.
    Í 1. mgr. 5. gr. frv. kemur fram sú grundvallarregla að allir bifreiðarstjórar sem stunda leiguakstur fólksbifreiða þurfa til þess atvinnuleyfi. Eins og áður hefur komið fram hafa slík atvinnuleyfi aðeins verið gefin út á takmörkunarsvæðum. Þetta tekur þó ekki til þeirra bifreiðarstjóra sem leysa leyfishafa af tímabundið samkvæmt reglum um það. Þeir bifreiðarstjórar þurfa hins vegar eftir sem áður að uppfylla skilyrði laganna. Byggt er á því að svokallaðar umsjónarnefndir úthluti atvinnuleyfum þar sem kveðið hefur verið á um takmörkun á fjölda bifreiða, en utan þeirra fari eftir reglugerð sem samgrn. setur.
    Í ákvæði til bráðabirgða er þeim sem stunda leiguakstur fólksbifreiða þar sem ekki hefur verið kveðið á um takmörkun á fjölda bifreiða veittur kostur á að uppfylla skilyrði laganna og sækja um atvinnuleyfi fyrir 1. jan. 1996.
    Í 3. mgr. 5. gr. frv. er kveðið á um það nýmæli að bifreiðarstjórar, jafnt leyfishafar sem launþegar, þurfi að hafa í bílnum skilríki um að þeir hafi heimild til að stunda leiguakstur með fólk. Tekur þetta ákvæði jafnt til þeirra sem hafa atvinnuleyfi á takmörkunarsvæðum sem utan þeira. Þykir þetta horfa til öryggis fyrir þá sem nýta sér þjónustu leigubifreiða.
    Í 3. mgr. 7. gr. frv. er lagt til að samgrh. geti falið umsjónarnefnd eða félögum bifreiðarstjóra að setja reglur um undaþáguveitingar og annast framkvæmd þeirra. Hið svokallaða innra eftirlit verði því hér eftir á hendi annars þessara aðila, þar á meðal að fylgjast með að þeir sem aka í forföllum leyfishafa uppfylli skilyrði laga og reglna um leigubifreiðar. Miðað er við að sá aðili sem hefur þetta með höndum geti gert allar nauðsynlegar ráðstafanir til að annast þetta eftirlit og falið það sérstökum eftirlitsmönnum eftir því sem nánar verður ákveðið í reglugerð. Jafnframt eiga bifreiðastöðvar að hafa eftirlit með að reglum þessum sé fylgt.
    Í 2. mgr. 10. gr. er lagt til að samgrh. geti þrátt fyrir ákvæði II. kafla veitt tímabundið og skilyrt atvinnuleyfi til reksturs eðalvagna og til bifreiðarstjóra þegar hann er jafnframt leiðsögumaður samkvæmt reglum sem um það gilda.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, hæstv. forseti, að rekja frekar einstakar efnisgreinar frv. en vísa til greinargerðar þess. Ég dreg enga dul á að það er uppi mikill ágreiningur um það á Alþingi hvort rétt sé að miða við 70 ára hámarksaldur eða ekki. Eins og lögin eru nú þá mismuna þau bifreiðarstjórum eftir því hvar þeir búa á landinu eða hvers konar bifreiðum þeir aka. Menn mega verða áttræðir þess vegna ef þeir aka, hópferðabifreið, áætlunarbifreið, vörubifreið, sendiferðabifreið eins og nú standa sakir eða aka leigubifreið utan þeirra fimm svæða sem ég áður get um. Auðvitað gengur ekki að mismuna mönnum með þeim hætti og ég er þeirrar skoðunar að Alþingi verði að kveða upp úr um að hvaða reglur eigi um þetta að gilda. Það er öldungis ljóst að ef meiri hluti alþingismanna er með því að nema aldurshámarkið úr lögum þá verður það niðurstaðan og þá verða menn að gera það upp við sig hvaða önnur regla komi til greina. Svo má auðvitað hugsa sér að hverfa aftur í fyrra farið að leigubifreiðarstjórar geti þess vegna orðið 85 eða 90 ára gamlir. Eins og fram kemur í þessu frv. tel ég eðlilegt að miða við 70 ára hámarksaldur og legg það því til.
    Að svo mæltu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og samgn.