Leigubifreiðar

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 17:55:05 (4041)


[17:55]
     Björn Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir að leggja þetta frv. fram í þeim búningi sem það er nú. Ég tel að það hafi tekið stakkaskiptum frá því að málið var lagt fyrir á síðasta þingi og þær breytingar sem gerðar hafa verið á frv. séu mjög til bóta.
    Ég vil láta það koma fram, hæstv. forseti, í þessum umræðum að svo er komið málum varðandi þetta mál á vettvangi Evrópuráðsins að hvað eftir annað hefur verið fundið að því við fulltrúa Íslands að Alþingi Íslendinga hafi ekki breytt þeim lögum sem í gildi eru varðandi atvinnuréttindi leigubílstjóra. En dómur féll í máli sem snertir þessi lög frá 1989 hjá Mannréttindadómstólnum og samkvæmt ákvæðum stofnsáttmála Evrópuráðsins ber okkur að laga íslenska löggjöf ef dómar falla á þann veg hjá Mannréttindadómstólnum að það er talið að íslenska löggjöfin brjóti í bága við mannréttindasáttmála Evrópu og það var talið í þessum dómi sem féll á árinu 1993. Það er því má segja komið í eindaga fyrir okkur hér að afgreiða þetta mál og búa þannig um hnúta varðandi þessa löggjöf að hún standist almennar kröfur sem settar eru í mannréttindasáttmála Evrópu sem við höfum þar að auki lögfest hér á landi.
    Á síðasta þingi þegar þetta mál kom fram flutti ég brtt. við frv. varðandi aldursmörk og rétt manna til þess að aka leigubifreiðum. Í þessu frv. hefur þessum ákvæðum verið nokkuð breytt. Þar er fallið frá þeirri mismunum sem er í gildi í þeim meingölluðu lögum sem enn gilda um þetta mál varðandi atvinnuleyfi eftir búsetu manna og var mismunandi eftir búsetu hvort menn misstu leyfið við 70 ára aldur eða ekki. Áður en hin meingölluðu lög, sem enn eru í gildi voru sett á árinu 1989, var það regla í íslenskum lögum að menn gátu haldið atvinnuleyfinu til 75 ára aldurs.
    Í fyrra þegar þetta mál var til umræðu, sem kláraðist ekki eins og við vitum enda hefði þetta frv. ekki þurft að koma fram ef við hefðum lokið málinu á síðasta þingi, kom fram brtt. varðandi aldursákvæðin frá sjálfstæðismönnum í samgn. Alþingis. Í ljósi þeirrar brtt. og umræðna sem fram hafa farið um þetta mál þá hef ég ekki flutt brtt. að þessu sinni en ég lít þannig á að ákvæðin um aldursmörkin muni koma til afgreiðslu í þingsalnum eftir að samgn. hefur fjallað um þetta mál. Ég vona það að hún muni skoða málin með svipuðum hætti og fram kom í nefndinni á síðasta þingi þar sem brtt. sem fram kom frá nefndarmönnum gekk út á það að atvinnuleyfið í raun féll ekki úr gildi fyrr en við 75 ára aldur enda uppfylltu menn ákveðin skilyrði sem nefnd eru í brtt. Ég hefði kosið að hæstv. ráðherra hefði tekið mið af þessu í frumvarpssmíð sinni núna og orðað lokamálsgrein 7. gr. á þann veg að atvinnuleyfið félli úr gildi við lok sjötugasta og fimmta árs aldursleyfishafa og hefði talið það vera í góðu samræmi við það sem gilti allt fram til þess að þessi óheillalög voru sett árið 1989 sem hafa orðið okkur til vansæmdar á alþjóðavettvangi þar sem þau brutu í bága við mannréttindasáttmála Evrópu.
    Nú er fyrir mannréttindanefnd Evrópu kæra út af þessum lögum frá 1989 vegna þess að ýmsir leigubílstjórar telja að í lögunum hafi falist óbærileg mismunun vegna þessara aldursákvæða sem enn eru í gildi. Það hefur ekki verið tekin afstaða til þessarar kæru af annréttindanefnd Evrópu en niðurstöðu í því máli ætti að vera að vænta nú má segja á næstu vikum. Ef mannréttindanefndin kæmist að þeirri niðurstöðu að málið sé þess eðlis að ástæða sé til að höfða mál fyrir Mannréttindadómstólnum yrði það í annað sinn sem mál kæmust fyrir þann dómstól vegna þessara óheillalaga eins og ég leyfi mér að kalla lögin frá 1989.
    Ég tel sem sé, hæstv. forseti, nauðsynlegt að áður en þetta mál er afgreitt frá þingi verði tekin afstaða til þess hvort þessi aldursmörk eigi ekki að verða eins og þau voru fram til 1989 og það hljóti að koma hér til álita og það hljóti að koma til álita í nefndinni sem um þetta mál fjallar enda fjallaði hún um málið í fyrra og gerði ákveðnar brtt. í því efni.