Fólksflutningar með langferðabifreiðum

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 18:13:56 (4045)


[18:13]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Þetta frv. er flutt til samræmis við hið fyrra frv. sem fjallar um aldurshámark leigubifreiðarstjóra. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að sömu rök hníga að því og ekki síðri að bifreiðarstjórar á langferðabifreiðum, hvort sem við tölum um langferðabifreiðar eða hópferðabifreiðar, þurfa að vera á góðum aldri, a.m.k. ef þeir aka að vetrarlagi milli fjórðunga og ekki síður ástæða til að fara gætilega í þeim efnum varðandi hæfni bifreiðarstjóra og aldur þegar um slíkan akstur er að ræða.
    Ég vil minna á að auðvitað eru það ekki aðeins hagsmunir bifreiðarstjóranna sem koma að þessum málum heldur einnig þeirra sem eru farþegar og almennt öryggi í umferðinni.
    Hæstv. forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og samgn.