Vöruflutningar á landi

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 18:15:21 (4046)

[18:15]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Hér er hið þriðja frv. sem að hluta til lýtur að hinu sama að aldur bifreiðarstjóra sem aka í atvinnuskyni skuli bundinn við það að þeir verði ekki eldri en 71 árs og skal ég ekki rekja það. Því til viðbótar er það að segja að með lögum um vöruflutninga á landi, nr. 47/1994, voru settar reglur sem nauðsynlegar voru í framhaldi af aðild Íslands að samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Í þeim lögum er fjallað um vöruflutninga á milli landa innan Evrópska efnahagssvæðisins og svokallaðra gestaflutninga. Með gestaflutningum er átt við heimild til að stunda vöruflutninga innan lands í öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Þau lög mæla hins vegar ekki fyrir um sérstakt leyfi til flutninga íslenskra aðila hér á landi með flutningabifreiðum.
    Í 2. gr. frv. er lagt til að leyfi þurfi til að stunda vöruflutninga hér á landi á sama hátt og til að stunda flutninga milli landa innan Evrópska efnahagssvæðisins og gestaflutninga.
    Verði þetta frv. að lögum verða þeir sem stunda vöruflutninga með flutningabifreiðum að afla sér leyfis og uppfylla skilyrði laganna um óflekkað mannorð, fjárhagsstöðu og starfshæfni. Það eru sömu skilyrði og nú gilda um hópbifreiðarstjóra og lagt er til að gildi um leigubifreiðarstjóra. Ég sé ekki ástæðu til að rekja efni frv. frekar og legg til að því verði vísað til 2. umr. og samgn. og vil taka undir orð Björns Bjarnasonar, hv. 3. þm. Reykv. um að það er mjög brýnt að þessi mál verði afgreidd á þessu þingi. Það eru skiptar skoðanir um efnisatriði en ágreiningurinn liggur ljóst fyrir og er skýr þannig að Alþingi ætti að geta látið hendur skipta um það hver niðurstaðan verður. Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og samgn.