Umfjöllun allshn. um þáltill. um embættisfærslu umhverfisráðherra

89. fundur
Miðvikudaginn 08. febrúar 1995, kl. 13:38:39 (4052)


[13:38]
     Guðmundur Árni Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Sá málatilbúnaður sem hér er viðhafður af hendi hv. þm. sem gert hafa athugasemdir við störf allshn. frá því í morgun er á misskilningi byggður. Algjörum misskilningi byggður. Ég vil minna þingheim á að sú tillaga sem var til umfjöllunar í allshn. laut að því hvort þinginu bæri að kjósa sérstaka nefnd sem skoðaði tiltekin embættisverk umhvrh. Í tillögunni var ekki ráð fyrir því gert að þessi fastanefnd þingsins, allshn., viðhefði þessa athugun og enda kom það aldrei til greina. Það var sérstök nefnd sem átti að fara til þeirra starfa og þingheimur mun væntanlega taka afstöðu til þess máls í kjölfar síðari umræðu um málið. Verkefni allshn. var að taka afstöðu til þess hvort ástæða væri til að kjósa slíka nefnd, ekki að vinna það verk sem þessi nefnd átti að vinna. Um það var fjallað í nefndinni í ítarlegri umræðu, á klukkutíma löngum fundi í morgun. Niðurstaðan var einfaldlega sú með lýðræðislegum hætti að meiri hluta nefndarinnar taldi ekki ástæðu til þess að kjósa slíka nefnd og lætur það fylgja í sínu nál. Hér er þinglega að farið og í alla staði eðlilega og ég vil minna hv. þm. á sem hér hafa talað að gaumgæfa áður en lengra er haldið um hvað þetta mál snýst og um hvað þessi till. til þál. snerist. Hún snerist ekki um það að allshn. færi í þessa athugun og rannsókn heldur um að taka til þess afstöðu hvort slíka rannsókn ætti að hefja af hendi þar til kosinnar nefndar.