Umfjöllun allshn. um þáltill. um embættisfærslu umhverfisráðherra

89. fundur
Miðvikudaginn 08. febrúar 1995, kl. 13:40:46 (4053)


[13:40]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Maður er alveg gjörsamlega gáttaður á þeim hlutum sem hér eru að gerast og þá ekki síst á ræðu hv. síðasta ræðumanns. Ég hef aldrei áður í minni þingsögu heyrt formann nefndar tala með þeim hætti sem hér var gert um innihald og efni starfa í þingnefnd. Ég spyr að því í fyrsta lagi, hæstv. forseti, hvers konar fordæmi er eiginlega verið að gefa hér um það með hvaða hætti menn fara með naumasta meirihlutavald til að mynda í þingnefndum? Ég sé ekki annað en með sama fordæmi geti stjórnarmeirihluti á hverjum tíma rifið ágreiningsmál í gegnum nefndir á einum sólarhring ef honum sýnist svo og látið lönd og leið öll ákvæði um að nefndir skuli vinna eins og þeim er ætlað að málum. Þannig að mér finnst að hæstv. forseti, forsn. og formenn þingflokka verði auðvitað að koma saman og ræða það hvað hér er að gerast. Þessi vetur er að verða alveg dæmalaus hvað snertir umgengni meiri hlutans hér við þingræðið. Það gerist sá fáheyrði atburður fyrir skömmu síðan að vantrauststill. er vísað frá. Hún er ekki tekin fyrir og afgreidd með eðlilegum hætti. Í gær leggur hæstv. forsrh. það til að þingmáli sé synjað um þinglega meðferð en sem betur fer var það fellt. En hvað gerist þá? Degi síðar er sú atkvæðagreiðsla í raun og veru ómerkt vegna þess að sá vilji meiri hluta þingsins kom fram í gær að þetta mál fengi þinglega meðferð. Það er náttúrlega enn meira hneyksli í ljósi þess að um það fór fram mjög hörð atkvæðagreiðsla hér þar sem meiri hlutinn óskaði eftir því að málið færi til nefndar og fengi þar skoðun með eðlilegum hætti milli umræðna. Það fólst í niðurstöðunni í gær. Þannig að ég sé ekki annað en að með vinnubrögðum sínum í morgun í nefndinni sé þessi fimm manna hópur hv. stjórnarliða að reyna að taka sér það vald að hafa að engu niðurstöðu meiri hlutans í gær því það er auðvitað gjörsamlega vonlaust mál að halda því fram að það sé eðlileg umfjöllun um þingmál sem hér var lýst áðan af hálfu þeirra sem frá því greindu hvernig þetta gekk fyrir sig. Algjörlega útilokað mál. Ég held að hv. starfandi formaður nefndarinnar verði að athuga sinn gang og er nú kannski ekki með reyndustu mönnum hvað þingstörf snertir í því hlutverki til þess að vera að útlista það fyrir öðrum hvernig eðlilegt sé að þetta gangi fyrir sig. Það er sem betur fer löng hefð og löng reynsla fyrir því að ákveðnum lágmarksskilyrðum varðandi málsmeðferð og skoðun á málum er fullnægt þar sem unnið er með eðlilegum hætti að þingstörfum.
    Ég óska eindregið eftir því, hæstv. forseti, að hæstv. forseti beiti sér fyrir fundi um þetta mál þar sem formenn þingflokka eða forsn. eða þeir aðilar komi saman og ræði það sem hér hefur gerst og þá með það í huga að sjálfsögðu að þessu verði snúið við. Málið tekið aftur í nefndinni og fái þar eðlilega skoðun milli umræðna.