Umfjöllun allshn. um þáltill. um embættisfærslu umhverfisráðherra

89. fundur
Miðvikudaginn 08. febrúar 1995, kl. 13:46:59 (4055)


[13:46]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil leiðrétta það sem fram kom í máli hv. sitjandi formanns allshn. að málið hafi snúist um það í morgun hvort allshn. fari í efnislega umfjöllun um þetta mál. Það kom skýrt fram af minni hálfu í nefndinni að það eina sem ég bað um var að það kæmu aðilar úr tveimur áttum til þess að nefndarmenn hefðu tækifæri til að gera upp hug sinn og hjálpa þeim til að taka afstöðu til þess hvort nauðsynlegt væri að skipa slíka rannsóknarnefnd og hún tæki þessa efnislegu umfjöllun. Annað var ekki beðið um. Þetta var engin ofrausn. Sú klukkustundar umfjöllun eða þriggja kortera umfjöllun sem varð í

morgun snerist ekki um málið heldur hvort leyft yrði að fjalla um málið, taka það til meðferðar og þá tillögugrein sem lá fyrir um hvort ástæða væri til að skipa þessa rannsóknarnefnd. Hafi menn þá hugmynd að ekki sé ástæða til að skipa slíka nefnd þá hefði einmitt umfjöllun getað leitt slík rök í ljós. En ég hlýt að skilja það svo að ekki hafi í rauninni verið hægt að sýna fram á það fyrst menn þorðu ekki í slíka umræðu.