Refsiákvæði nokkurra skattalaga

89. fundur
Miðvikudaginn 08. febrúar 1995, kl. 13:56:18 (4061)


[13:56]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég er sammála því sem hér hefur komið fram hjá fyrri ræðumönnum að það sé að sjálfsögðu rétt og skylt að þetta mál fái eðlilega þinglega meðferð og því sé skynsamlegt að vísa því til 2. umr. og væntanlega hv. efh.- og viðskn. Hins vegar er því miður ástæða til að spyrja hvernig sú meðferð verður. Þannig vill til að þrátt fyrir að stjórnarandstaðan hafi í sínum höndum formennskuna í efh.- og viðskn. þá eru stjórnarliðar þar í meiri hluta. Maður verður auðvitað að spyrja að fenginni reynslu frá því í morgun: Er þess að vænta að forustumenn stjórnarliðsins í efh.- og viðskn. flytji um það tillögu á morgun að þetta mál verði tekið út úr nefnd? Það vill svo til að það er fundur í efh.- og viðskn. í fyrramálið. Það væri alveg eftir vinnubrögðunum hér í morgun að meiri hluti stjórnarliðsins flytti um það tillögu strax kl. 8.15 í fyrramálið að þetta mál yrði tekið út úr nefnd og afgreitt. Ég óska eftir því að ef hv. 5. þm. Norðurl. v., Vilhjálmur Egilsson, sem er varaformaður efh.- og viðskn. og hefur verið oddviti stjórnarliðsins í þeirri nefnd, staðfesti það hér að slíkt standi ekki til.