Málflytjendur

89. fundur
Miðvikudaginn 08. febrúar 1995, kl. 14:07:19 (4064)



[14:07]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil í stuttu máli fá að mæla fyrir brtt. sem ég hef lagt fram við þetta mál og er á þskj. 598 og er brtt. við 2. gr. þar sem fjallað er um vörslufjárreikninga.
    Í 2. gr. frv. er svohljóðandi setning, með leyfi forseta:
    ,,Lögmanni er skylt að halda fjármunum sem hann tekur við fyrir hönd umbjóðanda síns aðskildum frá eigin fé. Skulu þeir varðveittir á sérstökum reikningi, vörslufjárreikningi.``
    Ég hef leyft mér að gera svohljóðandi brtt. við þennan þátt þar sem eftir þessari setningu sem ég var að lesa, komi eftirfarandi setning:
    ,,Yfirlit yfir stöðu vörslufjárreiknings skal sent umbjóðanda í upphafi hvers mánaðar.``
    Þetta tel ég eðlilegt að lögmenn geri. Þeir eru að gæta fjármuna sem umbjóðendur þeirra eiga og

ég tel að þeim eigi að vera skylt að senda þeim lista eða yfirlit, hreyfingarlista, yfir þann reikning sem þeir geyma. Meginrök lögmanna gegn þessari brtt. voru þau að þarna væri um verulegan kostnað að ræða en undir þær röksemdir get ég ekki tekið enda sjá allir í hendi sér hvert umfang slíks yrði. Hér er um að ræða annað hvort afrit af útskrift af tékkareikning sem menn þekkja og fá frá sínum banka margir hverjir mánaðarlega eða á þriggja mánaða fresti eftir því hvað menn vilja eða að um bankabók er að ræða. Það sem lögmenn þurfa að gera er einfaldlega að setja bankayfirlitið á ljósritunarvél og skella því í umslag og senda til umbjóðenda sinna.
    Ég tel að slíkt sé eðlilegt. Þetta er fjármagn sem umbjóðendurnir eiga og þeir eiga að geta fylgst með hverri hreyfingu sem er á þeirra reikningi og gert þá fyrirspurn og óskað eftir fylgiskjölum með hreyfingum sem þeir verða varir við á þeirra eigin reikningi. Eins og þetta er núna þá hafa þeir ekki tök á að fylgjast með og lögmennirnir hafa heimild til að taka út af þessum reikningi.
    Þess vegna hef ég leyft mér að bera fram þessa brtt. Þetta var nokkuð rætt í hv. nefnd eins og fram kemur í nál. Ég vil fá að leiðrétta það sem þar stendur því þar stendur, með leyfi forseta: ,,Nefndin lítur svo á að viðskiptamenn lögmanna geti gert samkomulag um að fá slík yfirlit.`` Mér þykir þetta fullsterkt til orða tekið að segja að nefndin líti svo á. Þeir sem undir þetta skrifa eru ekki nema fimm af níu nefndarmönnum þannig að það er hluti nefndarinnar sem lítur svo á. Enda tel ég að nokkrir nefndarmenn muni sjá sér fært að styðja þá brtt. sem ég hér er að mæla fyrir.
    Það segir í nál. að nefndin líti svo á að viðskiptamenn lögmanna geti gert samkomulag um að fá slík yfirlit og auðvitað er það rétt. Viðskiptamenn og lögmenn geta gert með sér samkomulag um hvað sem er. En það er ekki það sem þetta snýst um. Þetta snýst um að það sé skilyrt að lögmenn sjái til þess að umbjóðendur geti fylgst með sínum eigin fjármunum inni á þeim reikningum sem heita vörslufjárreikningar og lögmönnum er falið að geyma fyrir umbjóðendur sína. Þetta þykir mér ákaflega eðlilegt og ég skil ekki þá togstreitu sem menn eru tilbúnir að fara út í til að beita sér gegn jafnsjálfsögðum hlut. Ég held að ef þingmenn líta í eigin barm og þeir ættu hugsanlega sjálfir einhverja fjármuni hjá lögmanni þá mundu þeir sjálfir vilja fá að fylgjast með því hvernig með þá fjármuni væri farið. Í mínum huga er þetta mjög eðlileg og sjálfsögð brtt. og hún hefur alls ekki kostnað í för með sér. Ef einhvern þá er hann svo lítill að ég tel að lögmönnum mundi ekki verða sómi að því að leggja hann við það gjald sem þeir annars taka.