Samsettir flutningar o.fl. vegna EES

89. fundur
Miðvikudaginn 08. febrúar 1995, kl. 14:16:37 (4067)



[14:16]
     Frsm. meiri hluta samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Hæstv. forseti. Samgn. hefur fjallað um frv. þetta til laga um samsetta flutninga o.fl. vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Nefndin fékk á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, skrifstofustjóra í samgönguráðuneyti. Fram kom að frumvarpið felur í sér heimild samgönguráðherra til að fullnægja þeim skuldbindingum EES-samningsins er taka til flutningastarfsemi með setningu reglugerða. Í greinargerð með frumvarpinu eru taldar upp sex gerðir sem staðfesta þarf með reglugerð. Sú sjöunda, reglugerð nr. 1191/69/EBE, sem átti að vera þar á meðal, hefur hins vegar af misgáningi fallið niður og er hún birt sem fylgiskjal með nefndaráliti þessu.
    Í nál. meiri hlutans er prentvilla sem ég tel eðlilegt að biðjast velvirðingar á. Þar segir að nefndin leggi til að frv. verði samþykkt. Rétt er að það er meiri hluti nefndarinnar sem leggur til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu að það nái einnig til reglugerðar nr. 1191/69/EBE sem fylgir með nefndaráliti þessu sem fylgiskjal.
    Undir nál. meiri hlutans skrifa ásamt mér, Petrína Baldursdóttir, Egill Jónsson, Árni Johnsen, Sturla Böðvarsson, þ.e. fulltúar stjórnarflokkanna í samgn. Minni hlutinn hefur skilað séráliti. Mér þykir rétt að taka fram að það sem valdið hefur því að nefndin varð eigi einhuga um að leggja til að frv. yrði samþykkt eru ekki efnislegar ástæður heldur formlegar. Athugasemdir minni hluta nefndarinnar snúa að því að þeim finnst að of langt sé gengið í því að veita framkvæmdarvaldinu heimildir til setninga reglugerða til að fullnægja gerðum á grundvelli EES-samningsins og má út af fyrir sig taka undir það að þetta er ekki sérstaklega skemmtileg lagasetning. En ég vil taka fram að þetta frv. felur í sér í fyrsta lagi nokkrar heimildir sem geta orðið okkur Íslendingum þýðingarmiklar á sviði flutninga innan landa og á milli landa Evrópusambandsins en þær leggja ekki á okkur kvaðir. Frv. var mjög ítarlega skýrt á fundum nefndarinnar þannig að efnislega veit ég ekki til að sé neinn ágreiningur um efni málsins heldur er ágreiningur um form.
    Ég vil einnig greina frá því að þetta frv. er komið í nokkra tímaþröng þannig að mikil nauðsyn er að afgreiða það ef við eigum ekki vegna ákvæða EES-samningsins er að þessari starfsemi lýtur að sæta því að okkar málum þar verði stefnt fyrir dómstól.
    Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð, hæstv. forseti, aðeins leggja enn áherslu á að frv. nái afgreiðslu og legg til fyrir hönd meiri hluta nefndarinnar að frv. verði samþykkt í ljósi þeirra athugasemda er nál. fylgja með þá gerð sem nauðsynlegt er að setja reglugerð um og prentuð er sem fylgiskjal með nál.