Atvinnuréttindi vélfræðinga

89. fundur
Miðvikudaginn 08. febrúar 1995, kl. 14:31:00 (4071)


[14:31]
     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Hæstv. forseti. Samgn. hefur fjallað um frv. þetta um breytingu á lögum um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum, nr. 113/1984.
    Nefndin sendi frv. til umsagnar ýmissa aðila sem málið varða, þ.e. fagfélaga skipstjórnarmanna, Sjómannasambandsins, útgerðaraðila o.fl.
    Frv. er samið af nefnd sem skipuð var með bréfi hæstv. samgrh. Halldórs Blöndals, dags. 8. des. 1992. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar ýmissa hagsmunaaðila, þ.e. Björgvin Þór Jóhannsson, skólameistari Vélskóla Íslands, Einar Hermannsson, framkvæmdastjóri Sambands ísl. kaupskipaútgerða, Helgi Laxdal, formaður Vélstjórafélags Íslands, Jónas Haraldsson, skrifstofustjóri Landssambands ísl. útvegsmanna, Páll Hjartarson, deildarstjóri hjá Siglingamálastofnun ríkisins, og Sveinn Snorrason hæstaréttarlögmaður, sem jafnframt var formaður nefndarinnar. Með sérstöku bréfi 14. jan. 1993 var einnig Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, skipaður í nefndina og tók hann þátt í störfum hennar.
Helgi Jóhannesson lögfræðingur í samgrn. starfaði með nefndinni og var ritari hennar.
    Skemmst er frá því að segja að þessi nefnd, sem sett er saman af fulltrúum allra þeirra aðila sem hér hafa verið nefndir, komst að sameiginlegri niðurstöðu og þær umsagnir sem samgn. bárust gáfu að mati nefndarinnar ekki tilefni til mikilla breytinga. Eftir að hafa rætt málið við ýmsa af þeim hagsmunaaðilum sem hlut eiga að máli og fengið til sín á fundi nokkra af þeim aðilum sem áttu þátt í samningu frv. þá leggur nefndin til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu, að við 6. gr. frv. bætist ný efnismgr., 4. mgr., er orðist svo:
    ,,Skírteinishafi skal hafa skírteinið meðferðis við vélstjórn og sýna það þegar löggæslumaður krefst þess.``
    Nefndin sem heild leggur til að frv. verði samþykkt með þessari breytingu og ég vil gjarnan geta þess að fleiri frv. um sambærileg efni liggja fyrir samgn. sem er ætlun nefndarinnar að afgreiða og leita eftir að fái afgreiðslu þessa Alþingis.